Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Friðlýsing fornbýla í Þjórsárdal verndar sögu dalsins

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra staðfesti 14. október 2020 friðlýsingu menningarlandslags í Þjórsárdal í Árnessýslu. Friðlýsingin sameinar minjar 22 fornbýla í Þjórsárdal sem eina heild, auk umhverfis þeirra og annarra fornminjar á svæðinu.
 Mynd: Markús Þ. Þórhallsson
Lilja Alfreðsdóttir staðfesti í dag sem eina heild friðlýsingu minja 22 fornbýla í Þjórsárdal.

Auk fornbýlanna 22 eru umhverfi þeirra og aðrar fornminjar í dalnum friðlýst til þess að vernda þau verðmæti sem felast í menningarlandslagi dalsins.

Mikil byggð og grösug tún voru í Þjórsárdal á þjóðveldisöld og allt til ársins 1104 þegar byggðin þar eyddist í Heklugosi. Síðan þá hefur náttúra dalsins markast mjög af eldsumbrotum í Heklu en hann þykir fagur mjög.

Þar hafa fundist fjölmargar rústir sem geta varpað ljósi á líf Íslendinga frá fyrstu árum byggðar í landinu og fram á miðaldir. Viðamiklar fornleifarannsóknir voru gerðar í dalnum árið 1939 sem marka upphaf nútíma rannsókna af því tagi á Íslandi.

Þá voru bæjarrústirnar á stórbýli Gauks Trandilssonar á Stöng rannsakaðar. Sá bær er svo fyrirmynd tilgátuhúss sem reist var í dalnum í tilefni af ellefu hundruð ára afmæli byggðar á Íslandi árið 1974.

Síðari tíma framkvæmdir eru lítt sýnilegar í Þjórsárdal og er hann því talinn hafa mikið rannsóknargildi fyrir fræðimenn. Minjarnar í dalnum eru afar viðkvæmar en friðlýsing á að einfalda alla minjavörslu þar.

Því sé unnið brautryðjendastarf með því að friðlýsa þær í heild sinni. „Fram til þessa höfum við einkum horft til þess að friðlýsa einstaka minjastaði en mikilvægt er einnig að horfa til samspils mannsins og náttúrunnar sem hann lifir og hrærist í og vernda þá sögu,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Friðlýsingin geri vernd dalsins markvissari, bæti aðgengi og upplifun ferðamanna af svæðinu auk þess sem hún geri mögulegt að móta stefnu um framkvæmdir og nýtingu dalsins til framtíðar.