Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Finnur vinnuþrek minnka á tíunda mánuði atvinnuleysis

14.10.2020 - 21:43
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Kona á þrítugsaldri finnur fyrir minnkandi starfsorku eftir að hafa verið tíu mánuði atvinnulaus í faraldrinum. Um fimm þúsund manns glíma nú við langtímaatvinnuleysi - nærri jafnmargir eru atvinnulausir undir þrítugu.

Margir sækja um þær stöður sem losna

Ingibjörg Andrea Hallgrímsdóttir er viðskiptafræðingur á þrítugsaldri. Hún er búin að vera atvinnulaus í tíu mánuði. „Þetta er mjög þreytandi. Maður svolítið missir vonina; að fá vinnu og vita ekkert hvenær maður fer aftur að vinna. Allur sparnaður er upp urinn í rauninni, það er erfitt en æðruleysið er samt farið að kikka inn,“ segir Ingibjörg Andrea Hallgrímsdóttir.

Horfurnar eru ekki góðar, tæplega 18 þúsund og fimm hundruð voru atvinnulaus í lok september og yfir þrjú þúsund á skertu starfshlutfalli. Um fimm þúsund hafa verið atvinnulaus lengur en sex mánuði. „Það er augljóst að það er ótrúlega margt fólk að sækja um sömu stöðuna þannig að jafnvel þó að eitt og eitt starf detti inn, þá fær maður ekki svar fyrr en mörgum mánuðum seinna, að það sé búið að ráða í stöðuna.“

Föst í millibilsástandi

Elín Lára Reynisdóttir er nýútskrifaður íþróttafræðingur. Henni hefur verið sagt upp tvisvar síðan faraldurinn hófst. Hún segir mikinn mun á starfsframboði á milli mánaða. „Ég held að það taki á andlega að maður er fastur í millibilsástandi, þú ert ekki að færast fram á við en ekki endilega aftur en þú ert ekki að fara áfram í lífinu. Þá er mikilvægt að passa að dragast ekki allur niður.“

Elínu finnst mikilvægt að halda rútínu en segir erfitt að geta ekki stundað íþróttir í hertum samkomutakmörkunum.  „Svo er líka asnalegt að vera að kvarta af því margir díla við miklu verra. Ég hef ekki efnislegar áhyggjur. En ég er svolítið föst. Þetta er svolítið að lifa í groundhog day, vakna og gera sama hlutinn aftur og aftur. Ert eiginlega bara að bíða eftir að dagurinn klárist,“ segir Elín.

Langtímaatvinnuleysi tekur á

Ingibjörgu finnst hún lenda á milli skips og bryggju, hún er með reynslu en ekki nægilega mikla og stundum þvælist háskólaprófið fyrir og hún talin of menntuð fyrir starfið. Hún sækir um allt að fimmtán störf á mánuði. „Stundum er það umönnunarstarf eða eitthvað sem ég veit að ég vil ekki vera í til lengdar til að koma sér út úr þessu. Ég finn það að þolmörkin að hafa eitthvað að gera eru strax orðin miklu miklu lægri.“

Hún er að taka nokkrar einingar í háskóla, en finnur að starfsorkan hefur minnkað. „Og ég finn það bara, ég hef verið að vinna og í háskóla og fleira og það hefur verið allt í lagi. En þolið er alveg dottið niður og það er miklu erfiðara að halda í við það en þegar ég var á vinnumarkaði.“