Elstu tvíburar landsins staðráðnar í að verða 100 ára

Mynd með færslu
 Mynd: . - Úr einkasafni

Elstu tvíburar landsins staðráðnar í að verða 100 ára

14.10.2020 - 12:33

Höfundar

Elstu eineggja tvíburar landsins, systurnar Svanhildur og Hlaðgerður Snæbjörnsdætur, fagna 98 ára afmæli sínu í dag. Engir aðrir íslenskir tvíburar hafa náð svo háum aldri. Þær systur segjast staðráðnar í að verða alla vega hundrað ára.

„Þetta er nú svo lítilfjörlegt, við erum nú bara 98 ára. Ég er þegar búin bjóða einni konu í 100 ára afmælið mitt,“ segir Svanhildur. Systurnar eru fæddar í Svartárkoti í Bárðardal í Suður-Þineyjarsýslu. Systkinin voru sjö en Hlaðgerður segist ekki vita hverju hún geti þakkað langlífið. Árný systir þeirra hafi þó orðið 101 árs. „Föðuramma mín varð 93 ára og svo varð Árný systir 101 árs en hún lést árið 2016. Hún var mjög hraust þar til hún náði hundrað árum en þá fékk hún gláku þannig að síðasta árið var erfitt því þá gat hún ekki lengur lesið.“

Hlaðgerður segist fara í Múlabæ þrjá daga í viku. Hún er hætt allri handavinnu vegna sjóndepurðar en hlustar mikið á geisladiska og útvarp. „Núna er ég að hlusta á hljóðbókina Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum. Þetta er ljómandi vel skrifað.“

Þær segja að heimsfaraldurinn setji vissulega strik í reikninginn hvað varðar afmælishald. Þær ætla þó að koma saman með fjórum börnum Svanhildar. Þær systur koma fram í nýrri þáttaröð um tvíbura sem Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir vinnur nú að. Þar verður fylgst með öllu sem viðkemur tvíburum, allt frá upphafi meðgöngu yfir í tengsl tvíbura og samfylgd þeirra í gegnum lífið.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Tvíburarnir búnir að spila fyrir Ísland

Frjálsar

Tvíburar unnu í 400 metra hlaupi

Erlent

Tvíburar óskyldir foreldrunum og hvor öðrum

Mannlíf

Flestir tvíburar á Íslandi