Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ekki boðlegt að réttindi hinsegin fólk séu ekki tryggð

Mynd með færslu
Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna ´78.  Mynd: Kristín María - Aðsend mynd
„Lagaleg réttindi hinsegin fólks eru ekki nægilega trygg á Íslandi og standast ekki samanburð við fjölda ríkja í Evrópu. Mér finnst það ekki boðlegt fyrir land sem telur sig í fremstu röð í málaflokknum á heimsvísu,“ segir Þorbjörg Þorvaldsdóttir formaður Samtakanna ‘78.

Hins vegar sé samfélagsleg viðurkenning hinsegin fólks óvíða almennari. Þessi orð lét Þorbjörg falla á fundi sem Samtökin og Norræna húsið efndu til í gær, þriðjudaginn 13. október.

Í tilkynningu segir að fundinum hafi verið ætlað að draga fram þær hindranir og áskoranir sem tengjast réttindum hinsegin fólks á Íslandi. Þar hafi komið fram ákall um bætta löggjöf og stefnu og aukið fjármagn til að efla og tryggja réttindi hinsegin fólks.

Meðal þess sem fram kom er að ríkisstjórn og sveitarfélög þurfi að fjárfesta í réttindum hinsegin fólks. Það verði gert með auknum tíma og fjármunum auk stuðnings við það fólk sem vinnur í málaflokknum.

Tryggja þurfi lagaleg réttindi og öryggi en Ísland standi öllum Norðurlöndunum að baki hvað það varðar. Ekki sé nóg að mála regnbogagötur þó það sé lofsvert framtak.

Sömuleiðis segir að hinsegin fólk eigi rétt á lagalegu öryggi, ákvörðunarrétti yfir eigin líkama, vernd frá hatursorðræðu og glæpum, skilningi á sérstöðu sinni sem minnihlutahópur og að leitað sé til þeirra og hlustað á þau þegar fjallað sé um hinsegin málefni.

„Við þurfum áframhaldandi markvissa vinnu að nýrri löggjöf - við eigum að vera efst á Regnbogakortinu,“ segir Þorbjörg Þorvaldsdóttir formaður Samtakanna ´78. Sömuleiðis sé þörf á fleiri rannsóknum svo hægt sé að styðjast við traust gögn þegar málefni hinsegin fólks séu til umræðu.

Niðurstöður fundarins verða afhentar norrænum jafnréttisráðherrum en fundurinn var hluti málstofuraðar sem á upptök sín í samstarfi norrænu jafnréttisráðherranna. Markmiðið er að efla vernd og bæta líf hinsegin fólks á öllum Norðurlöndunum.