Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Brýn sýning um norræna normalíseringu hins kynjaða

Mynd: Norræna húsið / Norræna húsið

Brýn sýning um norræna normalíseringu hins kynjaða

14.10.2020 - 16:47

Höfundar

Þó lítið sé að gerast í myndlistarlífi Reykjavíkur þessa dagana fór Ólöf Gerður Sigfúsdóttir engu að síður í kjallara Norræna hússins á dögunum til að skoða sýninguna Undirniðri, en þar eiga norrænir myndlistarmenn verk.

Ólöf Gerður Sigfúsdóttir skrifar:

Þau eru ekki ýkja mörg tækifærin til að skoða myndlist um þessar mundir. Flest sýningarrými og söfn á höfuðborgarsvæðinu eru lokuð og því ekki um auðugan garð að gresja fyrir hinn almenna menningarnjótanda. Hinsvegar má skjóta sér niður í Hvelfinguna, sýningarsal Norræna hússins – að uppfylltum skilyrðum um hámarksfjölda, spritt og grímu, að sjálfsögðu. Hvelfingin, sem er staðsett í kjallara hússins, opnaði nýlega eftir endurbætur og nú með nýrri stefnu um að setja upp þematengda sýningu á hverju hausti, sem önnur starfsemi í húsinu tekur mið af þann veturinn. Það verður spennandi að sjá hvaða viðburðadagskrá verður í boði í vetur í tengslum við Undirniðri, áleitna og þýðingarmikla sýningu sem nú stendur yfir í Hvelfingunni og áætlað er að ljúki í janúar á næsta ári. 

Undirniðri er samsýning níu norrænna samtímalistamanna í sýningarstjórn Arnbjargar Maríu Danielsen. Á sýningunni kafa listamennirnir ofan í undirmeðvitundina og skoða kenndir og óra tengda kynvitundinni, í því markmiði að hrófla við hefbundnum birtingarmyndum kyns og kynhegðunar í samtímanum. Okkur er boðið inn í myrka undirheima mannlegra athafna, bæði í eiginlegum og óeiginlegum skilningi, eins og konar völundarhús dulinna kennda þar sem áleitnum spurningum um sjálfið er velt upp í samhengi við kyn, kyngervi og kynverund. Í öruggu rými Norræna hússins megum við liggja á hleri og gægjast undir slétt og fellt yfirborð viðtekinna hugmynda um kynvitund og kynhegðun. Í verki hinnar norsku Lene Berg, Kopfkino, fáum við að skyggnast inn í forvitnilegan reynsluheim kvenna sem starfa í kynlífsiðnaðinum í Berlín. Verkið, sem er sviðsett, en byggir á persónulegum reynslusögum kvennanna úr heimi drottnunar og undirgefni, kallar fram óljós mörk skáldskapar, fantasíu og raunveruleika. Þessi mörk renna saman ekki hvað síst vegna búninganna sem þær klæðast sem og vegna hægrar hreyfingar kvikmyndavélarinnar fram og til baka í sífellu eftir langborði sem þær sitja við. Þetta eykur bæði á sviðsetningu raunveruleikans sem og það raungerir sviðsetninguna, nokkuð sem rennur fullkomlega saman í störfum þessara kvenna. Verk sænska listamannatvíeykisins Nathalie Djurberg og Hans Berg, One Last Trip To The Underworld, sýnir okkur kynlegt landslag þar sem mörkin milli fegurðar og grótesku leysast upp í græðgislegum og dýrslegum kynferðisathöfnum.  Virkilega áhugavert verk, sem samanstendur af þremur hreyfimyndum og skúlptúrum, en þetta er í fyrsta sinn sem verk þeirra er sýnt hér á landi. Verkið einkennist af heillandi togi milli aðdráttarafls og fráhrindingu, fullnægju og frústrasjónar, nándar og hlutgervingu, sem skapast ekki hvað síst vegna hins seiðandi hljóðheims sem undirbyggir það. Hér kemst maður raunverulega í snertingu við hina kollektívu undirmeðvitund, sem er í senn heillandi og óhugnaleg upplifun. Gabríela Friðriksdóttir bregður upp frummyndum af sköpunarsögunni, upphafinu, tímanum og ímyndunaraflinu í þremur nýjum málverkum, Austurglugginn, Tímavél og Norðrið, sem öll unnin eru sérstaklega fyrir sýninguna. Gabríela vinnur hér með frumið, kunnuglegt stef sem hún spilar svo vel í sínum verkum, þótt hér fari að vísu lítið fyrir tengingu við eiginlegt þema sýningarinnar. Aðrir listamenn eins og norska ungstirnið Maria Pasenau og hinn dansk-breski Adam Christensen fara meira inn á við í persónulegar sjálfsmyndir í tengslum við kyngervi og kynhlutverk, meðan hin grænlenska Paarma Brandt gerir áleitið og viðkvæmt verk um kynferðislega misnotkun og það myrkur sem því fylgir. Og hinar finnsku Emma Helle og Helena Sinervo kanna táknrænt samband hafsins við undirmeðvitundina út frá erótískum ljóðum og brotakenndum skúlptúrum. 

Skoðun á norrænu samfélagsútópíunni

Verkin mynda ágæta heild og eru sett fram í formi hreyfimynda, málverka, innsetninga, kvikmynda og skúlptúra. Sum þessara verka eru plássfrek, bæði hvað varðar físískt rými sem hljóðrými. Þótt það hafi verið vel til fundið að setja upp sýningu með þetta viðfangsefni í myrkum kjallara, þá er rýmið heldur lítið og nokkuð þröngt er um verkin. Þannig rennur hljóð úr einu verki yfir í annað og mengar upplifun milli verka og sum verkin hefðu þurft meira andrými í kringum sig. Þá hefði farið betur á því að sýna öll verkin saman í Hvelfingunni í stað þess að slíta eitt hreyfimyndaverkið úr samhengi og sýna það uppi í kvikmyndasalnum á efri hæð Norræna hússins. 

En aftur að sýningarheildinni sjálfri. Auk þess fjalla um birtingarmyndir kynhlutverka og kyngerva, þá rammar sýningarstjórinn sýninguna ennfremur inn sem gagnrýna skoðun á hinni norrænu samfélagsútópíu. Á Norðurlöndum ríkja skýr samfélagsleg gildi um hvað þykir eðlilegt og hvað ekki, og fólk gengst gjarnan við þessum normum án mikillar mótspyrnu. Á sýningunni er ýjað að því að hið normatíva norræna norm breiði yfir fjölbreytileikann þegar kemur að kyni og kynhegðun, og spurt er hvort það sé í raun og veru pláss fyrir alls konar í norrænum samtíma, sem hefur þá sjálfsmynd að hafa náð langt í jafnréttisbaráttu, velferð og mannréttindum. Þessi norræna vídd sýningarinnar gefur henni pólitískt vægi og setur hana í spennandi samhengi sem mikilvægt er að ræða nánar, sem ég vænti að verði gert í viðburðadagskrá sýningarinnar í vetur. Hinsvegar er það einmitt þessi rammi, hin norræna vídd, sem ég átti stundum erfitt með að sjá tengingu við í verkunum sjálfum. Þótt listamennirnir séu allir norrænir þá tala verk þeirra ekki beinlínis inn í það markmið að hrófla við hinum normatívu norrænu gildum, þar sem samfélagslegur sáttmáli ríkir um hvað telst normalt og pláss fyrir frávik kann að vera lítið. Ef til vill eftir að koma í ljós þegar líður á sýningartímann hvaða birtingarmyndir þessi innrömmun á eftir að taka á sig. 
Hér er á ferðinni áhugaverð sýning um áleitið og verðugt viðfangsefni, þar sem sýningarstjórnunin er vel ígrunduð og útfærð. Arnbjörg María, sem einnig er menntuð leikstjóri, vinnur gjarnan að samfélagslega ágengum verkefnum í samstarfi við listamenn sem láta sig jafnrétti, frelsi, stöðu minnihlutahópa og önnur jaðartengd viðfangsefni varða. Hér hefur hún valið til samstarfs við sig áhugaverða listamenn, hvers verk eru þó stundum í heldur óljósum tengslum við markmið sýningarinnar um að afhjúpa og pota í hið normalíseraða norræna samfélag.

Ólöf Gerður Sigfúsdóttir rýnir í sjónmenningu í þættinum Víðsjá á Rás 1.  Nánari upplýsingar um Undirniðri má finna hér.