Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Bakkafjörður breytir um svip og Hafnartangi byggður upp

14.10.2020 - 10:14
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Talsverð uppbygging er nú á Bakkafirði, hús hafa verið endurbætt og má segja að bærinn sé að breyta um svip. Þar starfa nú tvær fiskvinnslur og Hafnartanginn er að breytast í aðlaðandi útsýnisstað og sælureit.

„Nú stöndum við á svokölluðum Tanga sem er upp af gömlu bryggjunni og hér veitti framkvæmdasjóður ferðamannastaða upphæð í styrk til þess að endurbæta þetta svæði. Það er verið að lagfæra þetta allt. Hér verður útsýnispallur náttúrulaug, bílastæði og afþreyingarsvæði fyrir gesti og gangandi,“ segir Ólafur Aki Ragnarsson, verkefnisstjóri brothættra byggða á Bakkafirði.

Fimm milljónir í braggann enn ekki greiddar út

Mörg verkefni eru komin af stað á Bakkafirði í gegnum þetta verkefni Byggðastofnunar. Fimm miljónum króna var úthutað til að endurbyggja gamla braggann sem var orðinn ruslahaugur á Hafnartanganum. Ung fjölskylda ætlar að breyta honum menningarhús með listamannaíbúð og vinnustofu. Það hefur tafist því sá styrkur hefur ekki enn fengist greiddur út. Ástæðan eru tímafrek skipulagsmál sem nú sér fyrir endann á.

Ryðgað hús á besta stað gert upp

Þá hefur Orkusjóður styrkt eigendur níu húsa til að bæta einangrun og um leið hverfur ryðgað járn. „Þetta hús heitir Hagi og hér á að taka þetta hús allt í nefið að utan, skipta um þak á því, skipta um klæðningu, einangra það og skipta um gler þannig að þetta verður eins og nýtt hús. Og þetta hús hefur nú pirrað okkur Bakkfirðinga þegar sjónvarpsmenn eða fréttamenn eru að taka myndir af því. En næst þegar þú kemur þá verður þetta eitt af fallegustu húsunum í byggðarlaginu. Ég lofa þér því,“ segir Ólafur Áki.

Þá hefur sveitarfélagið leyst til sín húsið Bergholt og ætla heimamenn að koma því í upprunalega mynd. Nýja fiskvinnslan Bjargið hefur líka lagt sitt af mörkum. „Bærinn er náttúrulega í mikilli saltúðun nánast allan ársins hring. Við erum alveg við sjóinn og mikið af húsunum er farið að láta vel á sjá. Meðal annars húsið sem ég stend fyrir framan. En við skiptum um á því núna í sumar og þetta er allt annað. En það eru margir að byggja upp og breyta og bæta húsin sín sem er bara frábært. Við þurfum á því að halda,“ segir Þórir Örn Jónsson, en hann stýrir fiskvinnslunni Bjarginu.

Ungt fólk kom til starfa í sumar

Á því rúma ári síðan fiskvinnslan tók til starfa hafi margt  breyst. „Það er byrjað að koma ungt fólk hingað, Það er komin stór fiskvinnsla sem dregur að fólk í vinnu á sumrin. Það var mikið af ungum Íslendingum hér í sumar sem voru að vinna. Og síðan verður spennandi á sjá með þennan Tanga hvort þessi heiti pottur komi þarna upp og það væri algjör snilld ef það væri hægt að sitja þarna og horfa á hreindýrin á sumrin í heita pottinum og njóta,“ segir Þórir Örn.

Fjallað var um uppbyggingu á Bakkafirði í 22 fréttum sjónvarps á mánudagskvöld. Horfa á frétt