
Atvinnuleysisspáin versnar með hverjum mánuðinum
Atvinnuleysi mældist 9 prósent í september og samkvæmt nýrri septemberskýrslu Vinnumálastofnunar má búast við því að það haldi áfram að aukast næstu mánuði og verði jafnvel 10,6 prósent í desember.
Sem fyrr er atvinnuleysið langmest á Suðurnesjum og þar jókst það einnig mest milli mánaða. Atvinnuleysið mældist þar 18,6 prósent og samkvæmt spá Vinnumálastofnunar má búast við að það verði 19,8 prósent í október og 21,9 prósent í desember.
Þriðja bylgjan hefur skýr áhrif
Unnur segir að þriðja bylgja faraldursins hafi augljós áhrif á vinnumarkaðinn: „Það er bara þessi veira. Ferðamannaiðnaðurinn er alveg frosinn aftur og það eru ruðningsáhrif að koma fram, síðastliðna 7-8 mánuði, síðan þetta ástand byrjaði. Það eru fleiri og fleiri að gefast upp, það er eina skýringin á þessu.“
Þá bendur hún á að atvinnuleysi aukist alltaf á haustin: „Þá fer sumarvinnan og dregur úr framkvæmdum. Það hefur alltaf dregist saman á íslenskum vinnumarkaði á veturna.“
Aðspurð um langtímaatvinnuleysi segir Unnur það mikið áhyggjumál hversu hratt bætist í hóp þeirra sem hafa verið atvinnulausir lengur en í sex mánuði, en þeir eru nú orðnir 5.000. Þá hafi sennilega í kringum 2.000 verið atvinnulausir lengur en í 12 mánuði.
Vonar að ástandið batni hratt þegar faraldurinn gengur niður
Hún segist þó binda vonir við að ástandið batni hratt um leið og faraldurinn gengur niður, enda séu vinnufúsar hendur nú á atvinnuleysisbótum. „Það sem er óvenjulegt við þessa kreppu er að þetta er auðvitað langmest í sama geira. Þetta er langmest í ferðageiranum og um leið og við sjáum fram á að eitthvað glæðist, þá mun fólk fá vinnu vonandi frekar hratt.