Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Atvinnuleysi eykst – nálgast 20 prósent á Suðurnesjum

14.10.2020 - 07:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Atvinnuleysi hér á landi var 9 prósent í september og jókst um hálft prósentustig frá því í ágúst. Þetta kemur fram í septemberskýrslu Vinnumálastofnunar. Þar er því spáð að atvinnuleysi haldi áfram að aukast næstu mánuði og verði jafnvel 10,6 prósent í desember.  

18.443 manns voru á atvinnuleysisbótum í almenna bótakerfinu í lok september og 3.319 voru á hlutabótum.  

Atvinnuleysi er 20 prósent meðal erlendra ríkisborgara. Um helmingur þeirra kemur frá Póllandi og stór hluti frá Litháen og Lettlandi.   

18,6 prósenta atvinnuleysi á Suðurnesjum og eykst hratt 

Sem fyrr er atvinnuleysið langmest á Suðurnesjum og þar jókst það einnig mest milli mánaða. Atvinnuleysið mældist þar 18,6 prósent og samkvæmt spá Vinnumálastofnunar má búast við að það verði 19,8 prósent í október og 21,9 prósent í desember.  

Næstmest er atvinnuleysið á höfuðborgarsvæðinu, 9,2 prósent, en það jókst ekki um nema 0,3 prósentustig frá því í ágúst.  

Nokkur kynjamunur er á atvinnuleysistölunum. Atvinnuleysi er meira meðal kvenna en karla alls staðar á landinu nema á höfuðborgarsvæðinu. Munurinn er langmestur á Suðurnesjum þar sem heildaratvinnuleysi er 17,7 prósent meðal karla en 22,5 prósent meðal kvenna og samkvæmt spám vinnumálastofnunar má búast við að 23,4 prósent kvenna á Suðurnesjum verði atvinnulausar í desember.  

Atvinnuleysi aukist mest í ferðatengdri starfsemi 

Ef september á þessu ári er borinn saman við september á síðasta ári má sjá að atvinnulausum hefur fjölgað í öllum atvinnugreinum en mest í ferðatengdri starfsemi, eins og gisti- og veitingaþjónustu og farþegaflutningum. Þá fjölgaði þeim mikið í persónulegri þjónustu og í félaga- og menningarstarfsemi. 

Atvinnulausum hefur fjölgað minnst í fræðslustarfsemi, heilbrigðis- og félagsþjónustu, sjávarútvegi, verslun og í upplýsingum og fjarskiptum.  

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV