Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ástæða færri innlagna gæti verið grímunotkun

14.10.2020 - 15:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Færra fólk hefur verið lagt inn á gjörgæsludeild á Landspítalanum núna en í fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins í vor. Það hafa líka færri verið í öndunarvél. Læknir á Landspítalanum segir að ein af ástæðunum fyrir því gæti verið að fleiri nota núna grímur.

Fleiri nota grímur núna en í vor

Enn hafa fáir farið á gjörgæsludeild. Það gæti þó breyst því að fleiri eru að veikjast og sumir gætu orðið mjög veikir. Þá gætu þeir þurft að vera í gjörgæslu. Þetta segir Már Kristjánsson, yfirlæknir á Landspítalanum. Hann segir að ein af ástæðunum fyrir því að núna hafa færri veikst mikið en í vor geti verið sú að margir eru farnir að vera með grímu.

„Grímunotkun er að verða almennari núna en enginn notaði grímur í vor. Ef tveir aðilar hittast með grímur, þá eru litlar líkur á að smitefni berist á milli. Það er ekki óhugsandi. En ef það gerist, þá berst það á milli í minna magni heldur en ef hvorugur væri með grímu,“ segir Már.

Hann útskýrir þetta þannig: Ef ein manneskja fær í sig fimm veirur getur hún orðið svolítið veik. En ef ein manneskja fær í sig fimm milljónir veira verður hún miklu veikari. Fólk getur smitast þótt það sé með grímu en það verður kannski ekki mjög veikt.

Þetta með grímurnar er svokölluð tilgáta. Það hefur ekki verið sannað að þetta sé svona. Það er líka erfitt að sanna það. „Það þýddi að það þyrfti að taka sýni frá fólki einmitt þegar það er að smitast, og það er ekki hægt að gera það,“ segir Már.

88 smit í gær

88 kórónuveirusmit greindust í gær. Helmingur þeirra sem greindust var í sóttkví.

Nú eru 1.132 manneskjur í einangrun og 3.409 í sóttkví. 24 eru á sjúkrahúsi og af þeim eru þrír á gjörgæsludeild.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir ljóst að faraldurinn sé ekki að minnka. „Ég held að það sé nokkuð augljóst að þessi bylgja stefnir í að verða stærri en bylgjan sem var í vetur,“ segir Þórólfur. Bylgjan sem er núna geti farið hærra og staðið lengur. Það geti tekið lengri tíma að slá á hana.