Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Akureyrarborg nú þegar til

14.10.2020 - 10:03
Mynd: RÚV / RÚV
Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akureyri og formaður samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, segir að nú sé kominn tími til að skilgreina Akureyri sem borg, enda sé borgin nú þegar til.

Hilda Jana situr í starfshópi sem var skipaður af samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og hefur það hlutverk að skilgreina svæðisbundið hlutverk Akureyrar. Fyrsti fundur starfshópsins er á morgun en hann hefur frest til miðs næsta árs til að skila tillögum.

„Stóra málið er að við höfum hingað til í íslenskri stjórnsýslu ekki skilgreint nákvæmlega hvert hlutverk svæða er, eða þjónustukjarna eða bæja eða borga. Samhliða þessu er í gangi vinna við að skilgreina höfuðborgarhlutverk, því það hefur heldur aldrei verið skilgreint eða sett á blað. Hverju á höfuðborgin að sinna og í hverju felst sú ábyrgð og þær skyldur?,“ segir Hilda í viðtali á Morgunvaktinni í morgun. 

Óljóst hlutverk borga 

„Í Bretlandi er fullt af borgum sem eru með íbúum undir 20.000, einu sinni var talað um að borg væri þar sem væri dómkirkja. Í dag er talað um það sem kjarna með opinberri starfsemi, fjármála- og heilbrigðisstarfsemi, háskóla og svo framvegis. En þetta er mjög loðið á Íslandi, erum við borg eða borgir, hvað gera þær? Hvernig viljum við að þær þróist?,“ spyr Hilda Jana.  

Hún segir mikilvægt að teknar verði stefnumótandi ákvarðanir um byggðamál. Þau hafi fengið að þróast „í einhverja átt“ í stað þess að tekin hafi verið skýr ákvörðun um það hvert þau ættu helst að stefna. „Og ef við skoðum til baka tókum við eiginlega eina stærstu byggðapólitísku afstöðu til þess þegar við ákváðum að við vildum hafa eina borg á Íslandi,“ segir hún. 

Segir borgina nú þegar vera til 

Hún telur að nú eigi að skilgreina Akureyri sem borg. „Við sjáum hvað gerist þegar við tökum svona stefnumótandi ákvörðun, þá kemur allt hitt af sjálfu sér. En við höfum ekki tekið í rauninni næstu ákvörðun. Þegar fyrsti borgarstjórinn er ráðinn í Reykjavík, það var 1908 og þá voru borgarbúar 11.000. Nú erum við komin á allt annan stað og ég tel að við ættum að skilgreina nýja borg,“ segir hún. „Ekki í merkingunni stórborg, en að hún hafi ákveðnar ábyrgðir og skyldur,“ bætir hún við. 

„Borgin er til nú þegar, og hún hefur ákveðið borgarhlutverk. Við höfum bara ekki sest markvisst yfir það hvernig við viljum sjá þetta borgarhlutverk þróast,“ segir Hilda Jana. Hún bendir á að það hafi ekki verið fyrr en á síðasta ári sem nafninu var breytt úr Akureyrarkaupstað í Akureyrarbæ.  

Þá minnir hún á að gerð hafi verið sóknaráætlun á Norðurlandi eystra eins og í öðrum landshlutum. „Og inni í þessari sóknaráætlun voru öll sveitarfélög hér sammála um það að þau vildu skilgreina borgarhlutverk Akureyrar,“ segir hún. Sérstaklega þurfi að skoða viðhorf íbúa í nærliggjandi sveitarfélögum: „Hvað telja þeir mikilvægt að sé á Akureyri og hvernig á hún að þjónusta nærliggjandi svæði?“