„Við ákváðum snemma að verða listbræður“

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV

„Við ákváðum snemma að verða listbræður“

13.10.2020 - 11:31

Höfundar

Rokkararnir og listamennirnir Óttarr Proppé og Sigurjón Kjartansson voru unglingar í Kópavogi þegar þeir kynntust og smullu saman. Þeir deila meðal annars áhuga á óhugnaði og drunga og gerðu ungir saman heimagerðar hryllingsmyndir með miklu gerviblóði. Mesta áherslu lögðu þeir á tónlistina fyrir myndirnar og varð sú tónsmíð vísir að hljómsveitinni HAM.

Óttar Proppé tónlistarmaður og bóksali segir að listamenn séu mun sjaldnar einir í sínu horni að finna upp hluti en margir haldi. Gott samstarf segir hann oft lykilinn að góðri list og hefur hann síðustu vikur hugsað sérstaklega mikið til samstarfsfélaga sinna sem hann hefur lítið sem ekkert getað hitt í samkomubanni. „Ég áttaði mig á að það er það sem maður kannski saknar mest, samstarfið við eitthvað fólk,“ segir hann í samtali við Felix Bergsson í Fram og til baka á Rás 2.

Í dagskrárliðnum Fimmunni rifjar hann upp fimm samstarfsmenn sína og efstur á blaði er æskuvinur hans Sigurjón Kjartansson tónlistarmaður, leikari og handritshöfundur, sem er með Óttari í rokksveitinni HAM. Sigurjón er alinn upp í Reykholti í Borgarfirði og á Ísafirði en flutti sem unglingur til Kópavogs þar sem félagarnir kynntust. „Ég er sjálfur úr Hafnarfirði svo ég kynntist honum óbeint, fór að heyra af honum í gegnum sameiginlega kunningja,“ segir Óttarr. Hann vandi komur sínar til Reykjavíkur þegar hann fór með félögunum þangað í menningarferðir til að kíkja í plötubúðir og þar rakst hann stundum á þennan dularfulla dreng. „Þá sá maður þennan skuggalega slána í svörtum leðurjakka með rosalegan ljósan liðaðan lokk langt niður á höku.“

Þegar þeir loksins voru formlega kynntir og fóru að spjalla smullu þeir saman. „Við vorum að tala um nýbylgju og hryllingsmyndir og menningu sem þótti kúl en hættulegt að velta sér upp úr á níunda áratugnum. Við ákváðum snemma að við ætluðum að verða listbræður,“ segir Óttarr. Þeir fóru snemma að búa til list og hafa gert það allar götur síðan. „Það sem einkennir okkar samstarf og hefur gert er að við höfum aldrei efast um hvað við værum að gera. Það var túlkað í gamla daga sem mikill hroki, að við þættumst vera betri en margir aðrir en við vorum bara vissari um hvað það var sem við vildum gera.“

Þeir skrifuðu saman handrit að hryllingsmyndir og fengu félaga sína til að leika. „Við tókum upp átta millimetra bíómynd sem hét því frábæra nafni Álversmenguðu djöflarnir og fjallaði um vonda sígauna sem bjuggu í kirkjugarðinum við hliðina á álverinu í Straumsvík,“ rifjar hann upp. Myndunum lýsir Óttarr sem lélegum hryllingi þar sem tilraunir voru gerðar með gerviblóð. Ein slík hét Nótt finngálknsins og önnur Hýri morðinginn en fæstar voru myndirnar kláraðar. Mestu áhersluna lögðu þeir á að semja kvikmyndatónlistina. „Upp úr því varð til hljómsveitin okkar HAM.“

Sigurjóni lýsir Óttarr sem miklum ljúflingi, „þó hann myndi aldrei viðurkenna það sjálfur. Hann er mjög skemmtilegur, mikill húmoristi og eldklár,“ segir Óttarr. Og það sem gerir hann að kjörnum samstarfsfélaga er að hann veit hvenær hlutirnir virka og hvenær ekki. „Það getur verið óþolandi þegar maður er ósammála honum en það ýtir hlutunum áfram. Ekkert verið að hjakka í einhverju ef það er ekkert spes. Það einkennir okkar samstarf.“

Hér er hægt að hlýða á allt viðtalið við Óttarr Proppé og eldri þætti í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Leiddist vinnan í lundabúð og fluttist til Parísar

Sjónvarp

„Magnað hvernig eineltið situr í mér“

Tónlist

Ham og Emilíana Torrini – Harmaborg

Tónlist

Pylsuát Íslendinga lykillinn að velgengni HAM