Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Veggöng í Fjallabyggð uppfylla ekki allar öryggiskröfur

13.10.2020 - 20:40
Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Ægisson - Siglfirdingur.is
Samgöngustofa telur að jarðgöng í Fjallabyggð uppfylli ekki að fullu reglur um öryggiskröfur og verklagsreglum um viðhald í jarðgöngum sé ekki fylgt sem skyldi. Óskað er eftir að Vegagerðin skili tímasettum áætlunum um úrbætur.

Bæjaryfirvöld í Fjallabyggð hafa í mörg ár farið fram á að öryggi verði aukið í jarðgöngum í sveitarfélaginu, aðkomu Vegagerðarinnar að brunavörnum og úrbætur á fjarskiptasambandi.

Samgöngustofa segir ýmsu ábótavant

Samgöngustofa hefur nú birt niðurstöður úttektar sem gerð var í göngunum fyrir tæpum mánuði. Þar kemur meðal annars fram að jarðgöng í Fjallabyggð uppfylla ekki að fullu öryggiskröfur samevrópskrar reglugerðar og ekki sé farið að öllu leyti eftir þeim öryggiskröfum sem útlistaðar eru í viðeigandi handbók. Þá sé ekki heldur fylgt að fullu verklagsreglum um viðhald í jarðgöngum.

Úttektin auðveldi samtalið við Vegagerðina

„Það virðist vera allavega að margt af því sem við höfum verið að segja, að það sé eitthvað til í því. Að það megi bæta ýmislegt í öryggismálum í jarðgöngunum hérna," segir Elías Pétursson, bæjarstjóri í Fjallabyggð. Þessi úttekt ætti jafnframt að auðvelda sveitarfélaginu samtalið við Vegagerðina.

Vill tímasetta áætlun um úrbætur í göngunum

Samgöngustofa hefur óskað eftir því að Vegagerðin skili tímasettri áætlun um úrbætur í göngunum og hvernig verklagsreglum um rekstur og viðhald ganganna verði háttað. Frestur er gefinn til 24. október.

Vonar að Vegagerðin bæti úr málum

„Við náttúrulega bara vonum að Vegagerðin fari í það að bæta úr," segir Elías. „Koma á útvarpssendingum, koma á góðum farsímasendingum í göngum og annð sem við teljum að þurfi að bæta úr."