Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Tíu mánaða kjaradeila starfsmanna Norðuráls leyst

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Birgisson
Skrifað var undir nýjan kjarasamning á milli Verkalýðsfélags Akraness og Norðuráls í kvöld, en samningaviðræður hafa staðið yfir í um tíu mánuði.

Vilhjálmur Birgisson, formaður verkalýðsfélags Akraness, kveðst afar sáttur með niðurstöðuna. Helsta markmiðið hafi verið að tryggja félagsmönnum sömu launabreytingar og lífskjarasamningurinn byggði á. 

Samningurinn er afturvirkur frá 1. janúar 2020 og eiga vaktamenn rétt á greiðslu vegna afturvirkninnar, sem getur numið í sumum tilfellum um 500 þúsund krónum. Vilhjálmur gerir nánari grein fyrir efni samningsins á Facebook-síðu sinni í kvöld.

  • Heildarlaun vaktavinnumanns á byrjandataxta mun nema 686.000 á mánuði og er hann að hækka um 43.000 á mánuði.  
  • Heildarlaun vaktavinnumanns með öllu sem er á 10 ára launataxta mun nema eftir nýjan kjarasamning 825.000 þúsundum og er hann að hækka um 52.000 þúsund á mánuði.

Vilhjálmur sagði í síðasta mánuði að það væri skammarlegt að ekki væri búið að semja í deilunni, en henni var vísað til ríkissáttasemjara í maí og í júlí var samþykkt með 97% atkvæða að hefja yfirvinnubann 1. desember.