Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Þórólfur: „Þetta er ekki spretthlaup, heldur langhlaup“

Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir ljóst að kórónuveirufaraldurinn sé í línulegum vexti. Ekki sé þörf á hertum sóttvarnaraðgerðum en hann vinnur nú að minnisblaði til heilbrigðisráðherra þar sem hann leggur til áframhaldandi aðgerðir.

83 smit greindust í gær, þar af 64 við einkennasýnatöku og 19 við sóttkvíar- og handahófsskimanir.  Þrír bíða niðurstöðu mótefnamælingar við landamærin. Þórólfur segir að þetta sé svipað hlutfall smita og um helgina.

„ Það voru tekin miklu fleiri sýni í gær en í fyrradag og daginn þar áður. Eins og við höfum bent á vildum við ekki vera að túlka þessar tölur sem komu um helgina of sterkt. Hlutfall þeirra sem hafa verið að greinast með COVID af sjúklingasýnunum hefur verið svipað, þannig að við erum á svipuðu róli, sýnist mér,“ segir Þórólfur.

Hann segir of snemmt að segja til um árangur af þeim sóttvarnaraðgerðum sem hafa verið í gildi í rúma viku, það gæti tekið lengri tíma en í fyrstu bylgju faraldursins. „Ástæðan er sú að við erum með allt öðruvísi faraldur en í vetur. Þannig að ég held að við verðum að vera undir það búin að það taki lengri tíma að sjá árangur. Þetta er ekki eitthvað spretthlaup sem við klárum á 1-2 vikum, þetta er miklu meira langhlaup en það.“

Núgildandi reglugerð um sóttvarnir gildir til mánudagsins 19. október. Þórólfur vinnur nú að tillögum um áframhaldandi aðgerðir sem hann skilar heilbrigðisráðherra síðar í vikunni. Hann segir of snemmt að segja til um hvort þær verða óbreyttar en býst ekki við að þær verði hertar. „Maður þarf að sjá hvernig næstu dagar verða en það væri óskynsamlegt að fara að aflétta þessum aðgerðum, ég held að við verðum að vera undir það búin að vera á tánum gagnvart þessari veiru.“

Geturðu sagt til hversu langs tíma þú munt leggja til næstu aðgerðir? „Nei, ég er ekki tilbúinn til að segja það. Ég hef venjulega lagt til 2-3 vikur, ég held að það væri skynsamlegt. En það getur vel verið að það þyrfti að leggja til aðgerðir til lengri tíma.“

Er tilefni til að herða aðgerðir? „Eins og staðan er núna finnst mér ekki ástæða til að fara að herða aðgerðir. Við erum með ansi harðar aðgerðir í gangi og ég er ekki viss um að hertar aðgerðir myndu skila sér.“