Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Þetta er það sem við töldum vera ásættanlegt“

Grunnskólabörn lesa. Úr umfjöllun Kveiks um læsi.
 Mynd: Kveikur - RÚV
Kynning stendur nú yfir á kjarasamningi grunnskólakennara, en skrifað var undir hann í síðustu viku. Atkvæðagreiðsla um samninginn hefst á föstudaginn og stendur í viku. Þorgerður Laufey Diðriksdóttir formaður Félags grunnskólakennara segist ekki geta lagt mat á hvort samningurinn verði samþykktur eða ekki.

Í Félagi grunnskólakennara eru á sjötta þúsund kennarar. Félagið skrifaði undir kjarasamning við sveitarfélögin 7. október, en þá höfðu samningar verið lausir síðan 1. júlí í fyrra og var viðræðunum vísað til ríkissáttasemjara í byrjun þessa mánaðar. Samið var um krónutöluhækkun í samræmi við Lífskjarasamninginn og sveigjanlegra vinnuumhverfi fyrir kennara og á samningurinn að gilda út næsta ár.  

„Við erum búin að kynna samninginn með þeim aðferðum sem nota þarf þessa dagana. Við erum  búin að vera með rafræna fundi og beinar útsendingar af fundum,“ segir Þorgerður.

Hvernig leggst nýi samningurinn í grunnskólakennara? „Ég held að grunnskólakennarar séu að taka afstöðu til þessa  bæði út frá því sem er í samningnum en eins líka út frá þeirri stöðu sem við vorum komin í á þessum tíma.“

Þorgerður segir ómögulegt að segja til um hvort kennarar muni samþykkja samninginn eða fella hann. „Þetta er það sem við töldum vera ásættanlegt til að bera undir félagsmenn á þessum tíma.“