Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Það er nýr raunveruleiki í þessari veiru“

13.10.2020 - 12:43
©Kristinn Ingvarsson
 Mynd: Háskóli Íslands
Nýtt spálíkan um þróun kórónuveirufaraldursins hér á landi verður birt á fimmtudag. Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði og ábyrgðarmaður líkansins, segir að til þessa hafi spálíkön náð yfir þriggja vikna tímabil en vegna óvissunnar sem nú ríkir nái það yfir viku til tíu daga. Hann segir að öll gögn sýni að mikið álag verði á heilbrigðiskerfinu næstu vikurnar.

 

„Þetta er miklu meiri óvissa núna, það eru svo miklar sveiflur og tilviljanir, ef til vill eru takmarkanir og aðgerðir að ná akkúrat í gegn þessa dagana, það þarf að taka tillit til þess í spánni,“ segir Thor.

Hann segir að við gerð síðasta spálíkans hafi ekki verið gert ráð fyrir þeim hópsmitum sem upp hafa komið. Veiran sé farin að hegða sér á annan hátt en búist var við.

„ Það er nýr raunveruleiki í þessari veiru sem við erum að fást við. Hún er að verða að einhverju leyti óútreiknanlegri. En svo má segja að við höfum ekki verið með sömu aðgerðir stöðugt í gangi. Nú eru komnar aftur þessar aðgerðir á og það ætti að skila sér bráðum. En það gerðist heldur ekkert alveg strax í fyrstu bylgjunni. Það er alveg von á ýmsu enn þá,“ segir Thor.

Um helgina greindust talsvert færri smit en í síðustu viku og í gær. Thor segir að ekki sé hægt að draga ályktanir af því, horfa þurfi á heildina og þá skipti hlutfall þeirra sem eru í sóttkví við greiningu miklu máli. 

„Það er rosalega mikilvægt hlutfall. Og vísbending um hvort það gangi vel eða ekki. Óvissan verður mikil. Þetta verður góð vísbending fyrir álagið á heilbrigðiskerfið frekar en að við merkjum strax að við séum að fara niður. Fjöldi smita hefur verið mikill undanfarið og samkvæmt reynslunni ættu innlagnirnar að fylgja að einhverju leyti í kjölfarið,“ segir Thor.