Taldi sig sjá konu með kött á klósettinu

Mynd: RÚV / RÚV

Taldi sig sjá konu með kött á klósettinu

13.10.2020 - 13:58

Höfundar

Vignir Daðason tónlistarmaður frá Keflavík var með miklu óráði eftir skelfilegt óhapp í krabbameinsaðgerð. Hann var svo hætt kominn að konunni hans var bent á útfararstofur til að hafa samband við til aðstoðar við skipulagningu á því sem koma skyldi.

Vignir hefur starfað með fjölmörgum hljómsveitum í tímans rás en einnig sent frá sér sólóplötu með frumsömdu efni. Sjálfur gefur hann reyndar tónlistarferlinum falleinkunn, í samtali við Sigmar Guðmundsson í þættinum Okkar á milli sem er á dagskrá RÚV í kvöld. Hann kveðst glettinn sjá það þegar hann lítur yfir tónlistarferilinn að hann hafi á tímabili verið fullur af hroka sem reyndist honum mikil hindrun. „Ég hafði skoðun á öllu og vissi allt betur en allir en hafði aldrei kynnt mér það. Ég var rekinn úr flestum hljómsveitum sem ég var í, ég veit ekki hvort ég hafi verið lélegur söngvari en það endaði með að ég gaf út sólóplötu,“ rifjar hann upp. Í dag gefur hann lítið fyrir tónsmíðarnar á plötunni. „Ég ætlaði svoleiðis að sigra heiminn en ég held ég hafi náð að þröngva þessu inn á 450 manns.“

Hann missti tökin á lífinu eftir hrun, fór í kjölfarið í mikla sjálfsvinnu og náði með henni bata frá alkóhólisma. „Í dag sit ég hér sem nýr Vignir Daðason,“ segir hann. Sú sjálfsskoðun var að hans sögn sterkasta vopnið í baráttu við krabbamein sem hann hefur háð síðustu mánuði. En meðferðin var erfið og í einni aðgerðinni lenti hann í bráðri lífshættu og missti gífurlegt magn af blóði. „Í miðri aðgerð skera þau á slagæð og konan var látin vita frammi að það væri mjög tæpt að ég myndi lifa þetta af,“ segir hann. „Það var ekki meinið heldur aðgerðin.“ Þegar læknunum tókst að brenna fyrir æðina hafði hann misst tæpa tvo lítra af blóði. Þegar hann vaknaði að aðgerð lokinni segir hann að ástandið hafi verið mjög krítískt.

„Konunni var réttur bæklingur frá útfararstofnun og henni sagt að njóta hverrar mínútu og klukkutíma sem hann væri hérna,“ rifjar Vignir upp. „Ég fékk lungnabólgu í aðgerðinni, annað lungað hætti að starfa svo líkaminn var byrjaður að slökkva á sér.“ Eiginkonan vildi þó ekki heyra á það minnst að Vignir væri á förum. „Hún sagði: Hann er ekki að fara neitt þessi maður. Sem var raunin, en mikið ofboðslega var aumt á mér ástandið fyrstu dagana,“ segir hann. Hann var í óráði og var farinn að ímynda sér ýmislegt. „Ég fór ekki á klósettið heldur sagði við konuna að ég vildi ekki fara þangað því þar væri kona sem byggi með einhvern kött og ég mætti ekki fara þangað inn.“

Vignir segir frá tónlistinni, alkóhólsimanum og krabbameininu í Okkar á milli með Sigmari Guðmundssyni sem er á dagskrá á RÚV í kvöld kl. 20. Hér er hægt að hlýða á óklippta eldri þætti sem hlaðvarp í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Þá er þetta ekkert gaman og ekkert smekklegt“

Stjórnmál

„Rosa mikið sem gerist á börunum og göngunum“

Innlent

Barnaníð sem er miklu hræðilegra en fólk ímyndar sér