Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Spyrja á ný hvar nýja stjórnarskráin sé

13.10.2020 - 16:10
Mynd með færslu
 Mynd: Höskuldur Kári Schram - RÚV
Þingmenn Pírata lýstu yfir furðu sinni yfir háþrýstiþvotti stjórnvalda á vegg við Sjávarútvegshúsið í gær og sögðu að verið væri að háþrýstiþvo sannleikann. Um tíu ungmenni komu saman við Sjávarútvegshúsið í dag og hófust handa við að mála samskonar listaverk og þvegið var af vegg við húsið með sömu skilaboðum, en nú á grindverk.

Áletrun sem máluð var á vegg við Sjávarútvegshúsið var þrifin af í gær. Narfi Þorsteinsson, höfundur verksins ásamt fleirum er aftur kominn með pensla og málningu í hönd og ætlar að endurskapa skilaboðin á grindverki rétt við vegginn sem skilaboðin stóðu áður á. Ekki liggur fyrir hver á umrætt grindverk en af myndum að dæma hefur verið málað á það veggjakrot áður. Öryggisverðir á vegum ráðuneytisins fylgdust með málningarstörfum úr fjarska en aðhöfðust ekkert.

Háþrýstiþvo í stað þess að sópa undir teppið

Meðal þeirra sem tóku til máls undir lið um störf þingsins við upphaf þingfundar í dag voru þeir Jón Þór Ólafsson og Björn Leví Gunnarsson, þingmenn Pírata. 

„Það er táknrænt að þegar stjórnvöld komast ekki lengur upp með það að sópa nýju stjórnarskránni undir teppið þá beinlínis háþrýstiþvo þau burt sannleikann um vanvirðingu þeirra við þjóðarviljann. Veggur sem staðið hefur óáreittur árum saman, þakinn veggjakroti, er skyndilega orðinn forgangsverkefni í Stjórnarráðinu. Það hefur ekki hvarflað að stjórnvöldum eina einustu sekúndu að hreinsa vegginn. Það þurfti ekki nema eina saklausa spurningu: Hvar er nýja stjórnarskráin?“ sagði Jón Þór Ólafsson  

Björn sagði að veggjakrotið hafi ekki verið þrifið, heldur aðeins spurningin sem varpað var fram. Sýndi hann mynd af veggnum sem tekin var fyrr í dag máli sínu til stuðnings. 

„Við erum dálítið í þeirri aðstöðu að ríkisstjórnin er veggur sem stendur í vegi fyrir breytingum á stjórnarskrá samkvæmt niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég vil bara spyrja þessarar einföldu spurningar: Af hverju er ekki búið að spúla þeim vegg í burtu?“ sagði Björn Leví Gunnarsson.