Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Sjúklingar og starfsfólk Kristness í sóttkví eftir smit

13.10.2020 - 21:09
Mynd með færslu
 Mynd: SAK
Starfsmaður á Kristnesspítala í Eyjafirði hefur greinst með kórónuveiruna og vegna þess þurfa 13 sjúklingar og 10 starfsmenn að fara í sóttkví.

Viðbragðsstjórn Sjúkrahússins á Akureyri greinir frá þessu, og tekur fram að talið sé að viðeigandi sóttvörnum hafi verið fylgt sem vonandi lágmarki simthættu. Þrátt fyrir það kalli smitið á þessi viðbrögð sem hafi áhrif á starfsemina.

Gert er ráð fyrir að þjónustan á Kristnesspítala verði takmörkuð næstu tvær vikurnar. Þeir 18 sjúklingar sem ekki þurfa í sóttkví verða útskrifaðir. Ekki er gert ráð fyrir nýjum innlögnum næstu tvær vikurnar á spítalann, en önnur starfsemi Sjúkrahússins á Akureyri er óbreytt að sinni.

Fréttastofa greindi frá því í dag að átta væru nú greindir með virkt smit í Eyjafjarðarsveit, en sex tilfelli má rekja til hóps sem hittist í sundi í síðustu viku.