Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sex smit tengd sömu sundlaug í Eyjafjarðarsveit

13.10.2020 - 16:28
Mynd með færslu
 Mynd: Markaðsstofa Norðurlands - RÚV
Átta hafa nú verið greindir með virkt COVID-19 smit í Eyjafjarðarsveit. Þá eru fjórtán íbúar í sveitinni komnir í sóttkví. Sex tilfelli má rekja til hóps sem hittist í sundi í síðustu viku.

Hvetja fólk tengt hópnum til að fara í skimun

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar sendi frá sér tilkynningu nú rétt í þessu þar sem greint er frá tilfellunum átta. Þar segir að flest smitanna séu tengd. „Af rakningu að dæma virðast flest smitanna að svo stöddu tengjast með beinum eða óbeinum hætti í morgunsundi fyrri hluta síðustu viku. Er því gott fyrir fólk að hafa í huga að hringja strax í heilsugæsluna ef einkenni gera vart við sig, sérstaklega ef það tengist þeim hóp,“  segir í tilkynningu.

Mjög afmarkaður hópur

Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit segir að þrátt fyrir að tilfellin beinist nær öll að sundlauginni þá verði henni ekki lokað. „Nei nei, þetta er mjög afmarkaður hópur sem hittist í sundi fyrir klukkan átta á morgnana. Við erum auðvitað að takmarka fjöldann í laugina en þurfum ekki að loka henni,“  segir Finnur. 

Engin smit tengd skólanum

Finnur segir að ekkert smitanna hafi verið tengt börnum, foreldrum eða kennurum í leik- og grunnskóla sveitarinnar. Nokkur börn og foreldrar séu þó í sóttkví, annars vegar vegna foreldra sem eru í heimasóttkví og hins vegar vegna nálægðar við veikan einstakling.