Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Segir hjarðónæmisleiðina vera siðferðislega ranga

epa08525390 World Health Organization (WHO) Director-General Tedros Adhanom Ghebreyesus attends a press conference organized by the Geneva Association of United Nations Correspondents (ACANU) amid the COVID-19 pandemic, caused by the novel coronavirus, at the WHO headquarters in Geneva, Switzerland, 03 July 2020.  EPA-EFE/FABRICE COFFRINI
Tedros Adhamom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar.  Mynd: EPA-EFE - Keystone
Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, segir að hin svokallaða hjarðónæmisleið, sem sumir vilja fara í baráttunni við kórónuveiruna, vera siðferðislega ranga. „Hjarðónæmi næst með því að vernda fólk frá veirum, ekki með því að gera það berskjaldað fyrir þeim,“ sagði Tedros á fundi WHO í gær.

Guardian greinir frá.

Hugmyndin um hjarðónæmi skýtur reglulega upp kollinum. Nýlega greindi fréttastofa frá undirskriftalistanum The Great Barrington Decleration þar sem ráðamenn eru hvattir til að snúa frá hörðum aðgerðum og leyfa frekari veirunni að dreifast meðal hinna heilbrigðu og ná þannig fram hjarðónæmi. 

Listinn vakti nokkra athygli en það dró heldur úr áhuga á honum þegar í ljós kom að mörg nöfn á listanum voru skálduð. 

Hugmyndafræðin um hjarðónæmi hefur fallið í grýttan jarðveg hjá mörgum sérfræðingum, meðal annars Þórólfi Guðnasyni, sóttvarnalækni sem hefur ítrekað varað við þessari leið og sagt hana geta valdið ýmsum samfélagsskaða. Til að ná fram hjarðónæmi þyrfti 60 prósent þjóðarinnar að smitast.

Á vef Guardian kemur fram að þröskuldurinn fyrir hjarðónæmi gagnvart mislingum sé 95 prósent og 80 prósent fyrir mænusótt. „Það hefur aldrei gerst í lýðheilsusögunni að hjarðónæmi hafi verið notað sem leið til að bregðast við útbreiðslu sjúkdóms, hvað þá við heimsfaraldri,“ sagði Tedros á fundinum í gær. „Að ætla að sleppa hættulegri veiru, sem við vitum lítið um, lausri er bara siðferðislega rangt. Þetta er bara ekki möguleiki.“

Tedros sagði of litlar upplýsingar liggja fyrir um hvernig ónæmissvarið væri við COVID-19, hversu sterkt það væri og hvers lengi það dygði. Hann benti sömuleiðis á að fólk væri að glíma við eftirköst sjúkdómsins og að vísindamenn væru eingöngu að stíga sín fyrstu skref í að skilja þau.

Maria Van Kerkhove hjá WHO sagði að þótt dánartíðni COVID-19 væri lág eða 0,6 prósent væri hún samt miklu hærri en hjá venjulegri flensu. Þá hækkaði þetta hlutfall mjög mikið eftir því sem sjúklingar væru eldri.