Frá utankjörfundaratkvæðagreiðslu í Suwanee í Georgíu. Mynd: EPA-EFE - ATLANTA JOURNAL CONSTITUTION
Ríflega tíu milljónir manna hafa þegar greitt atkvæði í forsetakosningunum í Bandaríkjunum. Þetta kemur fram í gögnum sem U.S. Elections Project hefur safnað saman og telja sérfræðingar þar á bæ þetta vera vísbendingu um að kjörsókn verði mikil.
Samkvæmt gögnum þeirra hafa 10,4 milljónir manna nú greitt atkvæði utan kjörfundar, en á sama tíma fyrir síðustu kosningar árið 2016 hafi 1,4 milljónir manna verið búnar að kjósa.
Í Minnesota, Suður-Dakóta, Vermont, Virginíu og Wisconsin, sé fjöldi atkvæða í utankjörfundaratkvæðagreiðslunni orðinn meiri en sem nemi fimmtungi af heildarkjörsókn í ríkjunum fimm árið 2016.