Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Óvarlegt að boða umbyltingu á vegagerð eftir slysið

13.10.2020 - 22:01
Mynd: RÚV / RÚV
Forstjóri Vegagerðarinnar telur óvarlegt að boða umbyltingu í vegagerð þrátt fyrir að stofnunin endurskoði verklag í kjölfar banaslyss á Kjalarnesi í sumar. Aukin áhersla verður á að tryggja hæfni verktaka.

Finnur Einarsson og Jóhanna Sigríður Sigurðardóttir létust í vélhjólaslysi á Kjalarnesi í sumar eftir að hafa lenti í árekstri við húsbíl. Klæðning sem lögð var á veginn þremur dögum fyrr reyndist ekki standast kröfur Vegagerðarinnar. 

„Þarna erum við að horfa á venjubundið viðhaldsverkefni sem fer algjörlega úr böndunum, það fer úrskeiðis, og það er alveg augljóst að það er óásættanlegt,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar.

Bergþóra segir að Vegagerðin hafi strax hafið endurskoðun á sínu verklagi og sú vinna standi enn yfir. Meðal annars á betur að tryggja hæfi verktaka, bæði hvað varðar blöndun á efninu og lagningu þess á vegina.

Finnst þér eðlilegt að Vegagerðin sjái sjálf um gæðastaðla á vegagerð?

„Vegagerðin tekur sína gæðastaðla frá erlendum aðilum, Evrópu og Skandinavíu, og setur sín mörk þar. Við hins vegar vitum það að eftirlit, til dæmis úttekt á slysinu er á hendi rannsóknarnefndar samgönguslysa, svo við erum ekki að taka okkur sjálf út ef það liggur í spurningunni.“

Óviss hvort það var viðeigandi að tala við fjölskylduna

Heiðrún Finnsdóttir, sem missti föður sinn í slysinu á Kjalarnesi, sagði í Kastljósi í gær að fjölskyldan ætlaði að leita réttar síns og gagnrýndi að enginn frá Vegagerðinni hefði haft samband eftir slysið.

„Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá held ég að við séum í miklum vafa um það hvort það hefði verið viðeigandi, hvort að það hefði verið velkomið af þessu fólki sem stóð í þessum hræðilegu sporum,“ segir Bergþóra.

Hún segir að erfitt sé að búast við umbyltingu í vegagerð í kjölfar slyssins, en í umfjöllun Kveiks í síðustu viku kom fram að stór hluti vegakerfisins beri ekki þá umferð sem fer um vegi landsins.

„Ég held að það væri óvarlegt af mér að tala um umbyltingu á vegagerðinni sem slíkri, heldur er þetta meiri umbylting á ferlunum. En auðvitað er allt undir í okkar skoðun.“