Óttast að snjóflóðahætta skaði ímynd Skarðsdals

13.10.2020 - 23:37
Mynd með færslu
 Mynd: Skíðasvæði Siglufjarðar - Facebook
Skíðaborg, skíðafélag Siglufjarðar, hefur áhyggjur af þeirri óvissu sem virðist ríkja um verklok framkvæmda á skíðasvæðinu í Skarðsdal, sér í lagi þar sem vá af snjóflóðahættu standi enn óbreytt. Skíðafélagið telur slíkar aðstæður skaði ímynd skíðasvæðisins sem komi niður á þróun fjölda gesta og uppbyggingastefnu félagsins „sökum þess að foreldrar telji börn sín ekki örugg á svæðinu.“ Hætta sé á brotthvarfi úr íþróttinni vegna bágborinna aðstæðna.

Þetta kemur fram í bréfi sem formaður skíðafélagsins sendi bæjarráði Fjallabyggðar og tekið var fyrir á fundi í dag. 

Skíðasvæðið í Skarðsdal hefur verið á undanþágu síðustu ár en það er að hluta til á snjóflóðahættusvæði.  Unnið hefur verið að því að færa það ofar en til þess þarf að leggja nýjan veg.

Í bréfi formannsins kemur fram að miklar vegaframkvæmdir hafi verið í Skarðsdal en verkið hafi gengið hægar en gert var ráð fyrir, meðal annars vegna bleytutíðar.

Þá segir hann að það hafi einnig vantað fjármuni til að klára breytingar á lyftum, lyftuhúsum, lýsingu og skíðaskála. „Og ekki er séð fyrir hvenær verkframkvæmdum verður lokið.“

Skíðafélagið hafi áhyggjur af þessari óvissu, ekki síst þar sem vá af snjóflóðahættu standi enn óbreytt. 

Skíðafélagið óskar eftir upplýsingum um stöðu og áætluð lok framkvæmda því það sjái fram á neikvæð fjárhagsleg áhrif „vegna tapaðra tækifæra í nýliðun, þjálfun og sölu veitinga til gesta skíðasvæðisins.“ Þá óttast félagið að jarðrask tengt vegaframkvæmdum geti skapað hættu fyrir skíðaiðkendur.

Bæjarráð fól bæjarstjóra að senda erindið á sjálfseignarfélagið Leyningsáss sem ber ábyrgð á uppbyggingu og rekstri skíðasvæðsins.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi