Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Óheppinn Japani fékk að valsa einn um Machu Picchu

13.10.2020 - 10:11
A general view of the city of Machu Picchu, Peru, 09 September 2007. Machu Picchu was constructed around 1450, in the golden period of the Inca empire, and was abandoned less than 100 years later, as the empire collapsed under the Spanish conquest.
 Mynd: EPA
Japanskur ferðamaður fékk að ganga einn síns liðs um Inkaborgina Machu Picchu í Perú um helgina, en hún hefur verið lokuð síðan í mars vegna faraldursins. Borgin er mjög vinsæl meðal ferðamanna en vel á aðra milljón berja undur innkanna augum árlega.

Japaninn Jesse Katayama kom til Perú um miðjan mars, og ætlaði að stoppa í nokkra daga en neyddist til að lengja fríið í annan endann. Landinu var lokað í mars en Katayma er einn rúmlega eitt þúsund ferðamanna sem enn eru strandaglópar. Landamærin voru opnuð í síðustu viku og flestir haldið heim á leið en Katayama gat ekki hugsað sér að yfirgefa Perú eftir sjö mánaða dvöl, án þess að stíga fæti inn í Machu Picchu, en hann dvaldi lengst af í bænum Aguas Calientes, steinsnar frá borg Inkanna. Hann sótti um leyfi til yfirvalda sem sáu aumur á honum, en gert er ráð fyrir að borgin verði opnuð fleirum í næsta mánuði. 

Breska ríkisútvarpið greinir frá heimsókn Katayama en hann sagði við blaðamenn í gær að hans helsti draumur hefði verið að ganga um inkaþorpið. Hann hefði nú ræst og heimsóknin staðið undir öllum hans væntingum. Kórónuveirufaraldurinn er enn í hröðum vexti í Suður-Ameríku en yfirvöldum í Perú gengur nokkru betur en öðrum að fækka smitum upp á síðkastið. Þar hafa nú um 850 þúsund greinst með sjúkdóminn og um 33 þúsund dáið frá því faraldurinn hófst. 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV