Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Norlandair var ekki með vélar sem uppfylla kröfurnar“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Flugfélögin Norlandair og Ernir bíða nú átekta eftir niðurstöðu Vegagerðarinnar vegna útboðs á áætlunarflugi, til Bíldudals, Gjögurs og Hafnar í Hornafirði. Vegagerðin afturkallaði í síðasta mánuði val á Norlandair í verkið eftir að Ernir kærði útboðið.

Þrjú tilboð bárust í verkið

Útboðið fór fram í sumar og bárust þrjú tilboð. Flugfélagið Ernir sem sinnt hefur þessum leiðum undanfarin ár og bauð í alla leiðirnar. Þá bárust tilboð frá Flugfélagi Austurlands og Norlandair. Vegagerðin tók tilboði Norlandair í allar leiðirnar. Ernir kærði þá niðurstöðu á þeim grundvelli að Norlandair uppfyllti ekki kröfur. 

„Það kom í ljós að Norlandair var ekki með vélar sem uppfylla kröfurnar sem gerðar voru í útboðinu. Þess vegna var þessi niðurstaða kærð,“  segir Hörður Guðmundsson, forstjóri Ernis í samtali við fréttastofu. 

Enn beðið niðurstöðu

Kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar fyrir verkið hljóðaði upp á 726 milljónir. Flugfélag Austurlands bauð 392 milljónir króna fyrir Gjögur og Bíldudal og 370 milljónir króna til Hafnar og var langlægst. Tilboð Norlandair hljóðaði upp á 612 milljónir króna fyrir Vestfirðina og 677 m.kr til Hafnar. Þá bauð Flugfélagið Ernir 797 milljónir króna fyrir áætlunarflugið til Bíldudals og Gjögurs en 531 m.kr. til Hafnar.

Skömmu eftir kæruna  ákvað Vegagerðin að afturkalla valið á Norlandair. Í tilkynningu kom fram að í ljósi nýrra upplýsinga væri mögulegt að gerð hafi verið mistök við mat á tilboðum og því hvort bjóðendur uppfylltu kröfur útboðsgagna. Óskað var eftir frekari gögnum frá  Erni og Norlandair sem breytt gætu matinu á hæfi bjóðenda. Að þeim upplýsingum fengnum yrði útboðið endurmetið. Nú tæplega mánuði síðar bíða félögin enn eftir niðurstöðu. 

Hörður bjartsýnn á að fá verkefnið aftur

Hörður Guðmundsson, forstjóri Ernis kveðst bjartsýnn á að félagið fái verkefnið aftur. Hann segir það mikilvægt fyrirtækinu. „Þetta skiptir okkur mjög miklu máli, við höfum byggt okkar fyrirtæki í kringum áætlunarflug til smærri staða. Maður veit svo sem aldrei hvernig þetta fer en verður maður ekki bara að vera bjarstýnn og lifa í voninni.“ 

Arnar Friðriksson, sölu og markaðsstjóri Norlandair sagði í samtali við fréttastofu að félagið biði nú átekta eftir fréttum af málinu. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig.