Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Námslota á Akureyri þrátt fyrir sóttvarnartilmæli

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Háskólinn á Akureyri hefur hafnað beiðni hjúkrunarfæðinema í fjarnámi um að sleppa við verklegt nám við skólann vegna kórónuveirufaraldursins. Rúmlega tuttugu nemendur af höfuðborgarsvæðinu þurfa því að meta hvort þeir fara til Akureryrar, þvert á tilmæli sóttvarnaryfirvalda.

Lotan hefst á föstudag

Námslota fyrir nemendur á öðru ári í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri hefst á föstudaginn. Í lotunni vinna nemendur náið saman í verklegu námi. Fjörutíu og níu nemendur eru skráðir í námið en tuttugu og tveir af þeim búa á höfuðborgarsvæðinu. Fyrr í þessum mánuði óskuðu nemendur eftir að verklega lotan yrði færð á rafrænt form. Þeirri beiðni var hafnað.

„Ráðleggja okkur að klára þetta núna"

Ingibjörg Ósk Ingvarsdóttir fulltrúi nemenda segir að margir hafi áhyggjur af því að þurfa að fara norður. „Eins og Þórólfur Guðna, ef mér leyfist að vitna í hann, þá segir hann að höfuðborgarbúar séu hvattir til þess að fara ekki að nauðsynjalausu og að hver og einn verði að meta hvað þeim finnst. Það er í rauninni stór partur af því að meta hvort að menn séu við góða heilsu og vilji koma,“ segir Ingibjörg.

Þannig að skólinn er að mælast til þess að nemendur komi en setja það samt í hendur á hverjum og einum?

„Já þeir setja það svolítið í hendur á hverjum og einum en ráðleggja okkur að klára þetta núna."

Ýmsar ráðstafanir gerðar

Í yfirlýsingu frá skólanum segir að stúdentar hafi fengið skýr skilaboð um að það væri þeirra val að mæta í lotuna eða ljúka þessum námsþætti síðar. Þá hafi lotan verið stytt úr fimm dögum í einn dag, sem er að sögn skólans algjört lágmark til að efla og prófa klíníska færni stúdenta. Mikilvægt sé að halda lotuna núna til að samfella haldist í náminu. Þá hafi hjúkrunarfræðideild gert eftirfarandi ráðstafanir til að tryggja öryggi stúdenta í staðarlotunni:

· Hámark 8 stúdentar eru í hverjum hóp

· Hóparnir eru samsettir í samráði við stúdenta

· Hlé á milli hópa er lengt

· Grímuskylda er í húsnæði háskólans

· Stúdentar og kennarar klæðast sjúkrahústreyjum

· Snertifletir og tæki eru sótthreinsuð á milli notenda

· 1-2 metra regla er viðhöfð að undanskildum þeim einum einstaklingi sem unnt er með í færniþjálfun og heilsufarsmati

· Í staðarlotunni verður eingöngu kennsla sem ekki er hægt að framkvæma rafrænt