Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mexíkóforseti fær eiginkonu sinni ómögulegt verkefni

13.10.2020 - 03:36
epa08730518 A handout photo made available by the Mexican Ministry of Foreign Affairs of the wife of the president of Mexico Andres Manuel Lopez Obrador, Beatriz Gutierrez Müller, during a conference in Paris, France, 08 October 2020. Mexican President Andres Manuel Lopez Obrador reported on 08 October that his wife, Beatriz Gutierrez Müller, is in Europe to obtain historical and archaeological pieces that will be exhibited next year in Mexico on the occasion of the 200th anniversary of its independence.  EPA-EFE/Mexican Ministry of Foreign Affairs / HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
Beatriz Gutierrez Müller, eiginkona forseta Mexíkó. Mynd: EPA-EFE - Mexican Ministry of Foreign Affa
Eftir að forseti Mexíkó sendi eiginkonu sína með bréf til Ítalíu með ósk um afsökunarbeiðni frá kaþólsku kirkjunni segist hann nú hafa fengið henni nánast ómögulegt verkefni. Nú vill hann að hún sannfæri Austurríkismenn um að færa Mexíkóum aftur höfuðdjásn sem talið er að hafi verið í eigu Moctezuma, keisara Asteka.

Andres Manuel Lopez Obrador forseti Mexíkó greindi frá þessu á Twitter. Beatriz Gutierrez Müller, eiginkona hans, er á ferðalagi um Evrópu þar sem hún er meðal annars að kynna sér þau mexíkósku menningarverðmæti sem Evrópuþjóðir hafa í fórum sínum. Forsetinn óttast þó að það verði ómögulegt verkefni fyrir hana að fá Austurríkismenn til þess að færa þeim aftur djásn Moctezuma, þar sem þeir hafi þegar eignað sér það.

Ekki er vitað hvernig höfuðdjásnið endaði í Austurríki á sínum tíma. Það er þakið hundruðum kvesala-fjaðra og yfir þúsund gullplöttum. Það er nú til sýnis á minjasafni í Vín. 

Um helgina birti forsetinn myndir af eiginkonu sinni með forseta Ítalíu, Sergio Mattarella, og Frans páfa. Hún afhenti þeim bréf frá Obrador, þar sem hann óskaði eftir afsökunarbeiðni frá kaþólsku kirkjunni fyrir hennar hlut í innrás Spánverja í Mexíkó fyrir um 500 árum. Eins vildi hann fá handrit að láni úr bókasafni Vatíkansins, sem tekin voru frá Mexíkó eftir að Spánverjar náðu þar völdum. Nokkur handrit voru varðveitt þar en flestar ritaðar heimildir um tímana fyrir innrásina voru brenndar samkvæmt skipun kaþólsku kirkjunnar.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV