Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Mælti fyrir frumvörpum um kynrænt sjálfræði

13.10.2020 - 20:43
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forsætisráðherra mælti í dag fyrir þremur frumvörpum um kynrætt sjálfræði. Eitt þeirra felur í sér lækkun aldursviðmiðs sem einstaklingur má breyta opinberri kynskráningu sinni úr 18 ára í 15 ára. Aðrar breytingar snúa meðal annars að réttindum þeirra sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Gagnrýnt var af þingmanni Flokks fólksins að umskurður barna væri utan gildissviðs frumvarpsins.

Nokkur mál voru lögð fyrir Alþingi í dag, meðal annars frumvörp um þingsköp, jafnastöðu og rétt kynjanna, stjórnsýslu jafnréttismála, frumvarp um leigubílaakstur, landshöfuðlén og fleira. Þingfundur stendur enn. Forsætisráðherra mælti fyrir þremur frumvörpum um kynrænt sjálfræði fyrr í dag. 

Í einu frumvarpinu er meðal annars kveðið á um að börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni njóti réttar til líkamlegrar friðhelgi í tengslum við kyneinkenni sín og eigi rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem völ er á hverju sinni.  Lagt er til að meginreglan verði sú að varanlegar breytingar á kyneinkennum barns yngri en 16 ára sem fæðist með ódæmigerð kyneinkenni skuli einungis gerðar í samræmi við vilja barnsins. 

Frumvarpið nær ekki til aðgerða af trúarástæðum svo sem umskurðar og gagnrýndi Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins í ræðu sinni að frumvarpið næði ekki til þeirra.

„Hver er skýringin á því að það skuli vera af trúarlegum ástæðum að það megi bara ef einhverjum dettur í hug framkvæma þessa aðgerð. Hví í ósköpunum gildir ekki sú regla að þegar viðkomandi barn er komið á 15 ára aldur, geti það tekið upplýsta ákvörðun um þetta sjálft.“ segir Guðmundur Ingi.

Önnur umræða sem þarf að taka 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að umræðu um umskurð drengja falla utan við umfjöllunarefni frumvarpsins. 

„Þetta frumvarp sem ég legg hér inn og byggir á þessari miklu vinnu, það snýst um börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Ég tel hitt vera allt aðra umræðu. Það er að segja, umskurður drengja fellur utan við skilgreininguna á ódæmigerðum kyneinkennum sem er það sem Alþingi fól forsætisráðherra að gera og það er það sem forsætisráðherra gerir hér og leggur þetta frumvarp fram.“

Hún minnir á að forhúðaraðgerðir séu gerðar hér á landi af heilsufarslegum ástæðum í tilfellum þar sem forhúð er of þröng eða veldur sársauka, þvaglátsvandamálum. sýkingum og vandamálum tengdum kynlífi. 

„Því getur reynst heilsufarslega nauðsynlegt að ráðast í það að fjarlægja hluta forhúðar eða opna hana án þess að fjarlægja hana og þegar börn yngri en 16 ára eiga í hlut falla slíkar aðgerðir undan 4.grein enda teljast kyneinkenni í slíkum tilvikum ódæmigerð. Forhúðaraðgerðir þar sem forhúðin er bara venjuleg, þar sem slíkar aðgerðir kunna að vera gerðar eða fyrirhugaðar af trúarlegum eða menningarlegum ástæðum þá fellur það utan við gildissviðs þess sem Alþingi fól mér að gera“ segir Katrín.

Ýmsar breytingar í farvatninu varðandi kynrænt sjálfræði

Í öðru frumvarpi eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum svo sem ákvæði sem lúta að réttindum í tengslum við meðgöngu og fæðingu barns, einkum fjárhagslega aðstoð við foreldra. Í öðru lagi má nefna löggjöf um tæknifrjóvgun og í þriðja lagi ákvæði sem lúta að kynjajafnrétti. Í fjórða lagi hefur frumvarpið að geyma tillögur að breytingum á tilteknum ákvæðum almennra hegningarlaga.

Í þriðja frumvarpinu er gert ráð fyrir að aldursviðmið sem barn má opinberlega breyta kynskráningu sinni verði fært úr 18 ára niður í 15 ára. 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV