Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Lýsir vináttunni sem sannri og djúpri í máli systranna

Mynd með færslu
 Mynd: ©Þórgunnur Oddsdóttir
Kona, sem er ákærð fyrir að féfletta tvær systur á tíræðisaldri, ber ættingjum þeirra ekki vel söguna í greinargerð sem verjandi hennar skilaði til Héraðsdóms Reykjavíkur í lok síðasta mánaðar. Hún segir vinátta hennar og eldri systurinnar hafa verið sanna og djúpa og að gamla konan hafi litið á hana sem dóttur sína og tekið hana fram yfir ættmenni sín, systkini og afkomendur þeirra.

 

Í ákæru héraðssaksóknara á hendur konunni og eiginmanni hennar kom fram að heildarfjárhæðin af meintum brotum konunnar næmi 80 milljónum króna. Krefst saksóknari meðal annars þess að húseign hjónanna, Audi-jeppi og listmunir eftir Ásmund Sveinsson, Jóhannes Kjarval og Einar Jónsson verði gerðir upptækir.

Í ákærunni sagði að konan hefði kynnst eldri systurinni í gegnum starf hennar hjá bandaríska sendiráðinu þar sem hún vann um árabil. Yngri systurina er hún ekki sögð hafa þekkt persónulega. Systurnar eru báðar með heilabilun og í ákærunni, sem fréttastofa greindi frá í sumar, voru veikindi þeirra og samskipti við konuna, rakin.

Bréf til landlæknis sagt sanna val eldri systurinnar

Greinargerð konunnar er ítarleg og skemmst er frá því að segja að hún hafnar öllum ásökunum í ákærunni. Greinargerð mannsins hennar er mun styttri. Þar vísar hann því bæði á bug að hafa haft vitneskju um meint brot eiginkonu sinnar og að eiginkonan hafi gerst sek um þau brot sem henni séu gefin að sök.  

Í greinargerð konunnar er vísað til ýmissa gagna sem liggja fyrir í málinu, meðal annars bréf hæstarlögmanns til Landlæknisembættisins sem er sagt sanna að það hafi verið val eldri systurinnar að umgangast konuna enda hafi hún þar notið ástar og umhyggju.  „Ástar og umhyggju sem hún ákvað ásamt systur sinni að endurgjalda með því arfleiða konuna af nánast öllum eignum þeirra.“

Það sé ekki dómstóla að fara gegn vilja arfleifenda til að þóknast fjarskyldum erfingjum.

Segist hafa verið útilokuð frá heimsóknum

Í greinargerðinni er eldri systirin sögð hafa verið numin brott af heimili sínu fyrir þremur árum og hún svipt frelsi sínu af fjarskyldum ættingjum sem hafi flutt hana nauðuga á bráðadeild.

Þetta hafi þeir gert þrátt fyrir að konan hefði séð til þess að systirin væri á biðlista hjá tveimur stofnunum. „Þessa vinnu létu bæði lögráðamaður og fjarskyldir ættingjar sem vind um eyru þjóta og hin stolta og sjálfstæða heimskona sem vildi aðeins það besta var flutt nauðug á bráðadeild,“ segir í greinargerðinni.  

Lögráðamaðurinn og fjarskyldu ættingjarnir hafi svo kerfisbundið reynt að koma í veg fyrir að konan gæti efnt loforð sitt um að annast vinkonu sína eins og lengi og kostur væri. Hún hafi verið útilokuð frá heimsóknum en get rætt við hana í síma nærri daglega.

Vildi lifa og njóta

Konan lýsir því í greinargerðinni að systirin hafi verið eins og ein af fjölskyldunni, hún hafi hringt í sig þegar hún vaknaði og hún verið sótt og dvalið á heimili þeirra, borðað með fjölskyldunni kvöldmat og verið eins og amma barna þeirra hjóna.

Í greinargerðinni er jafnframt fullyrt að konan hafi ráðstafað fjármunum systranna með vitund og vilja vinkonu sinnar sem hafi viljað njóta þeirra með öðrum. 

Meðal annars er rakin ferðasaga þeirra tveggja til heimsborgar í útlöndum Systirin skipulagði ferðina og valdi hótelið. „Þar kom ekki annað til greina en dýrasta og þekktasta hótel borgarinnar,“ segir í greinargerðinni.

Bíll frá hótelinu hafi sótt þær á flugvöllinn og í öllum ferðum um borgina, hvort heldur var á söfn, sýningar eða í verslanir var alltaf notaður bíll frá hótelinu í stað leigubíls. Og hann látin bíða meðan þær sinntu erindum sínum.  Konan hafi nánast verið eins og gjaldkeri fyrir vinkonu sína í þessari ferð sem endranær „enda vildi hún lifa og njóta.“

Konan hafnar því að hafa tekið muni af heimili systranna án leyfis eins og hún er ákærð fyrir.  Allir þeir munir sem lagt var hald á heimili hennar og við húsleit og höfðu áður tilheyrt systrunum hafði vinkona hennar gefið henni og öðrum í fjölskyldunni.

Ættingjar ráði ekki hvernig systurnar ráðstöfuðu sínu fé

Í greinargerðinni er skotið föstum skotum á ættingja systranna og lögráðamenn. Hugmyndir þeirra um það hvernig systurnar hefðu átt að fara með fé sitt skipti engu og þau geti ekki breytt því sem systurnar ákváðu meðan þær voru lögráða. „Þeim var þá frjálst að gera það sem þær vildu með allar eignir sínar þótt ættingjum kunni nú að þykja það súrt í broti að þeir ættu aldrei að fá neinn arf.“

Systurnar hafi ákveðið upp á sitt einsdæmi og án vitneskju konunnar að gera hana að bréferfingja og veita henni víðtækt og varanlegt umboð til að annast fjármál þeirra.  Systurnar hafi ekki orðið fyrir neinu fjárhagslegu tjóni heldur séu það fjarskyldir erfingjar þeirra sem hafi takmarkaðan erfðarétt og lögráðamenn systranna sem telji svo vera, án þess þó að færa fram sönnun um saknæma og ólögmæta háttsemi.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV