Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lífeyrissjóðurinn Gildi fjárfestir í Arnarlaxi

13.10.2020 - 12:55
Arnarlax Laxeldi kvíar sjókvíar Vestfirðir Bíldudalur Arnarfjörður Fiskeldi Suðurfirðir
 Mynd: Jóhannes Jónsson - ruv.is
Hlutir í laxeldisfyrirtækinu Arnarlaxi, fyrir á sjötta milljarð króna, verða seldir í nýju hlutafjárútboði félagsins í dag. Lífeyrissjóðurinn Gildi hyggst fjárfesta fyrir rúma þrjá milljarða króna í félaginu.

Í tilkynningu til norsku kauphallarinnar í dag kemur fram að laxeldisfélagið Arnarlax verður skráð á Merkur hlutabréfamarkaðinn í Noregi í lok mánaðarins. Um leið skiptir norskt eignarhaldsfélag Arnarlax á Íslandi um nafn og heiti nú Icelandic Salmon AS. Stundin segir frá þessu í dag.

Hyggjast sækja níu milljarða í nýtt hlutafé

Í tilkynningunni til norsku kauphallarinnar segir að hlutahafar í Arnarlaxi hyggist sækja nýtt hlutafé fyrir rúma níu milljarða króna við skráninguna á Merkur. Nýtt hlutafé verði notað til að styðja við vöxt Arnarlax á Íslandi.

Nýir hluthafar taka þátt í hlutafjárútboði

Lífeyrissjóðurinn Gildi hefur tilkynnt að sjóðurinn ætli að fjárfesta í Arnarlaxi fyrir um þrjá milljarða króna, þá ætlar Stefnir, dótturfélag Arion banka, að setja milljarð í Arnarlax og norski fjárfestirinn Edvin Austbø kaupir hlutafé fyrir um hálfan milljarð. Í þessu samhengi hyggjast stórir hluthafar í Arnarlaxi selja sig út úr félaginu að hluta. Meðal annars norska félagið Pactum AS og íslenskt félag í eigu stjórnarformanns Arnarlax, Kjartans Ólafssonar.

Áhugaverður fjárfestingarkostur að mati Gildis

Í svari lífeyrissjóðsins Gildis, við fyrirspurn fréttastofu um ástæður þess að sjóðurinn tekur þátt í þessu hlutafjárútboði, kemur fram að áhersla Icelandic Salmon á sjálfbærni, gæði og virðingu fyrir umhverfinu, geri félagið að áhugaverðum fjárfestingarkosti. Félagið sé öflugt og vaxandi framleiðslufyrirtæki og þetta sé fjárfesting í vaxandi grein sem skili sjóðnum vonandi góðri ávöxtun til lengri tíma. Gildi hafi ekki tekið ákvörðun um frekari fjárfestingar í laxeldi að svo stöddu.