Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Launaþjófnaður vaxandi vandi á íslenskum vinnumarkaði

Fáni með merki stéttarfélagsins Eflingar.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Heildarupphæð vangoldinna launa sem Efling krafði launagreiðendur um nam 345 milljónum á síðasta ári. Að sögn Viðars Þorsteinssonar framkvæmdastjóra Eflingar er algengast að starfsfólk í veitinga- og ferðageiranum þurfi að leita réttar síns.

Sífellt fleira launafólk leitar fulltingis stéttarfélaga til að krefja atvinnurekendur um vangoldin laun. Á síðustu fimm árum hefur kröfum sem borist hafa Kjaramálasviði Eflingar fjölgað úr tvö hundruð í sjö hundruð á ári.

Kröfurnar nema alls um milljarði á þessum tíma. Langan tíma getur tekið að innheimta hverja kröfu en hver þeirra nemur yfirleitt á bilinu um 400 til 500 þúsund krónum.

Viðar Þorsteinsson segir í samtali við fréttastofu að sívaxandi hópur félagsmanna heyi þögult stríð á hverju ári. Hann kveður ekki farið í mál nema þau séu nokkuð skotheld.

Viðar tók fram að fáir lentu í að fá ekki laun sín greidd en gerðist það þyrfti að leggja fram gögn máli sínu til sönnunar, bæði að brot hefði verið framið og viðkomandi hefði orðið fyrir tjóni.

Langoftast væri verið að sníða af greiðslur á borð við yfirvinnuálag, desemberuppbót og þess háttar. Sömuleiðis þekktist að fólki væri boðin vinna til prufu um einhverja hríð án þess að greiðsla kæmi fyrir.

Tilhneigingin er, að mati Viðars, almennt sú að fremja brot gagnvart öllum starfsmönnum og leiðrétta svo gagnvart þeim sem kvarti. Launafólk sitji uppi með skaða sinn á meðan og geti ekki staðið við sínar skuldbindingar.

Það er ekki nema dómur falli launamanni í vil að dráttarvextir eru reiknaðir en engin sekt eða bætur leggist ofan á greiddar kröfur. Viðar segir Eflingu krefjast þess að sett verði lög sem tryggi sekt eða refsingu fyrir að greiða ekki laun.

Í kjölfar kjarasamninga 2019 hétu stjórnvöld að slík ákvæði yrðu sett í löggjöf sem hluti af stuðningi þeirra við lífskjarasamningana. Að sögn Viðars hefur málið verið í nefnd frá því kjarasamningar voru undirritaðir og Samtök atvinnulífsins hafi barist gegn innleiðingu sektargreiðslna.

Ekki náðist í Eyjólf Árna Rafnsson formann Samtaka atvinnulífsins við vinnslu fréttarinnar. Í grein sem birtist í Fréttablaðinu í ágúst síðastliðnum sagði hann af og frá að samtökin stæðu á einhvern hátt í vegi fyrir að settar væru refsingar eða sektarheimildir á þá atvinnurekendur sem gerðust sannanlega uppvísir að því að uppfylla ekki kröfur um lágmarkskjör launamanna.