Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Krónan heldur áfram að veikjast

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Krónan hefur tapað allt að 20 prósent af verðgildi sínu gagnvart helstu gjaldmiðlum það sem af er þessu ári. Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka segir viðbúið að Seðlabankinn þurfi að beita sér af meiri krafti á gjaldeyrismarkaði ef krónan heldur áfram að veikjast.

 

Verulega hefur dregið úr gjaldeyristekjum þjóðarbúsins á þessu ári út af Covid faraldrinum og hruni ferðaþjónustunnar. Þetta hefur haft áhrif á gengi krónunnar sem hefur verið veikjast gagnvart helstu gjaldmiðlum.

Í byrjun árs kostaði ein dönsk króna 18,2 íslenskar krónur en kostar nú tæpar 22. Bandaríkjadalur kostaði í byrjun árs tæpar 122 en er kominn í 138 krónur. Sömu sögu er að segja um breska pundið sem hefur farið úr 161 krónu í 180. Evran kostar nú 163 krónur en kostaði 136 krónur í byrjun árs.

Seðlabankinn hefur beitt inngripum á gjaldeyrismarkaði til að draga úr sveiflum og koma í veg fyrir gengisfall.

„Ef að krónan veikist eitthvað að ráði til viðbótar þá gæti bankinn þurft að herða sig í sölunni miðað við þau orð sem að forsvarsmenn hans hafa látið falla um að þeir myndu koma í veg fyrir eitthvað veruleg gengisfall héðan í frá,“ segir Jón Bjarki.

Gengi krónunnar nú er svipað og það var árið 2015. Jón segir að frekari veiking geti leitt til aukinnar verðbólgu.

„Í núverandi gildum þá er hún alveg á þeim stað sem dugar okkur til að ná viðspyrnu í utanríkisviðskiptum og útflutningi. Það er ekkert sérlega heppilegt að hún veikist mikið meira. Verðbólga hefur verið að vaxa og þó að núverandi gildi krónunnar dugi til þess að verðbólgan verði á áþekkum slóðum fram á vetur þá myndi það fljótt segja til sín með aukinni verðbólgu ef við fengjum einhverja verulega veikingu héðan í frá,“ segir Jón Bjarki

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV