Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Hrakfallasaga bústaðar rakin í kæru vegna stöðuhýsis

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Úrskurðarnefnd umhverfis-og auðlindamála hefur vísað frá kæru sumarbústaðaeigenda sem kröfðust þess að leyfi þeirra til að hafa stöðuhýsi á sumarbústaðalóð sinni yrði framlengt um eitt ár. Bústaðurinn á lóðinni hefur mátt þola ýmislegt; hann skemmdist í Suðurlandsskjálftanum árið 2000, nánast allt var rifið út úr honum eftir vatnsskemmdir 16 árum síðar og skömmu eftir að þeim endurbótum lauk eða í desember í fyrra brann hann til kaldra kola.

Byggingafulltrúi Grímsnes-og Grafningshrepps gerði eigendunum í apríl á þessu ári að fjarlægja stöðuhýsið. Yrði ekki farið að þeim tilmælum væru dagsektir yfirvofandi.

Sumarbústaðaeigendurnir sögðu í kæru sinni til nefndarinnar að þeir hefðu keypt sumarhúsið 1998. Tveimur árum seinna reið Suðurlandsskjálftinn yfir og skemmdist bústaðurinn í skjálftanum. Hann var endurgerður að hluta en 16 árum seinna var hann fyrir vatnstjóni og var þá allt rifið út nema útveggir. 

Eigendurnir gripu til þess ráðs að kaupa sér stöðuhýsi frá Englandi og settu það upp með stöðuleyfi. Uppbygging hins nýja sumarhúss dróst hins vegar á langinn en í október á síðasta ári var það loks tilbúið. Tveimur mánuðum seinna eða skömmu fyrir jólin í fyrra brann bústaðurinn til kaldra kola. Fram kom í fréttum  að tjónið í brunanum hefði verið verulegt eða tugir milljóna króna.

Eigendurnir fengu frest til september á þessu ári til að fjarlægja stöðuhúsið en sjá ekki fram á að geta staðið við það vegna deilna við tryggingafélagið í tengslum við brunann.  Þeir segja í kærunni að uppbygging á nýju sumarhúsi geti ekki hafist fyrr en sú deila hafi verið leyst.  Stöðuhýsið er tengt rafmagni og rotþró og stóð til að selja það í sumar.

Eigendurnir óskuðu því fresti til að fjarlægja stöðuhúsið þar sem hvorki hefði gefist tími né fjárhagur til að meta hvað væri best að gera í stöðunni. Aðstæður í þjóðfélaginu í vetur hefðu auk þess verið þess eðlis að lítið sem ekkert var hægt að gera vegna kórónuveirufaraldursins.

Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að ákvörðun byggingafulltrúans væri ekki kæranleg þar sem þetta hefðu einungis verið tilmæli og viðvörun um dagsektir. Þegar ákvörðun hefði verið tekin þyrfti að tilgreina upphæð dagsekta frá tiltekinni dagsetningu en það væri ekki gert..  Ekki lægi því fyrir lokaákvörðun í málinu sem hægt væri að bera undir nefndina. Var kærunni því vísað frá.