Hefur leitað að 330 börnum

13.10.2020 - 12:46
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Guðmundur Fylkisson er aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en hann er þekktastur fyrir leit að týndum börnum. Hann hefur starfað innan lögreglunnar í 35 ár og að sögn móður hans komst hann snemma í kynni við lögregluna. Hann átti þá til að hjóla of langt í burtu frá heimili sínu. Oft var það sjálfur yfirlögregluþjónninn á Ísafirði sem skutlaði þá Guðmundi aftur heim með þríhjólið í skottinu.

Guðmundur ólst upp á Ísafirði og bjó þar með foreldrum sínum og yngri bróður. Í næsta húsi bjuggu föðurafi hans og amma og hann varði miklum tíma hjá þeim. Móðurafi hans og amma ráku einnig bú í Ófeigsfirði. Þangað hélt Guðmundur flest sumur ásamt mömmu sinni og hann segir hans fyrstu vinnu hafa falist í ýmsum störfum í Ófeigsfirði, sem voru þó ólaunuð. 

Foreldrar Guðmundar skildu þegar hann var ungur og var ákveðið að hann myndi búa hjá pabba sínum á Ísafirði en mamma hans flutti úr bænum með yngri bróður Guðmundar. Hann ólst því upp hjá einstæðum föður sem var nokkuð sérstakt á þessum árum. Hann dvaldi mörg sumur með móðurafa sínum og ömmu í Ófeigsfirði ásamt mömmu sinni. 

Guðmundur segist lítið muna eftir skilnaði foreldra sinna en muni hins vegar daginn sem mamma hans flutti út. „Ég vissi í raun ekkert hvert hún var að fara, hún var bara farin. Ég kemst svo að því mörgum árum seinna að hún fór nú ekki langt, hún fór bara út í Bolungarvík fyrstu mánuðina,” segir Guðmundur sem segist ekki eiga neinar slæmar minningar frá þessum tíma. 

Hann átti áfram gott samband við mömmu sína þrátt fyrir að hann hafi búið með pabba sínum á Ísafirði. Á sumrin dvaldi hann með mömmu sinni en hún var þá ráðskona í vegavinnuhópi. „Ég var því farinn að taka í nefið langt fyrir aldur fram, lærði það af vörubílstjórum í Húnavatnssýslu,” segir Guðmundur. 

Þegar kom að námi ákvað Guðmundur að skrá sig í Fjölbrautaskólann á Sauðárkróki í stað þess að fara í Mennstaskólann á Ísafirði. Eftir fyrsta námsveturinn fór hann að leita að sumarvinnu. Á þessum tíma var pabbi Guðmundar skrifstofustjóri í niðursuðuverksmiðju á Ísafirði ásamt því að vera í útkallsliði slökkviliðsins. Þá vildi svo heppilega til að slökkviliðsstjórinn var einnig að leita að vinnu fyrir tengdason sinn. Honum þótti óheppilegt að ráða tengdason sinn í slökkviliðið enda yrði hann þá sakaður um klíkuskap. Hann gerði því samkomulag við pabba Guðmundar. Tengdasonurinn fengi starf í verksmiðjunni og Guðmundur myndi starfa í slökkviliðinu um sumarið. „Ég var kominn inn í sjúkrabíla- og slökkvilið með bráðabirgðaökuskírteini,” segir Guðmundur.

Á þessum tíma deildi lögreglan húsnæði með slökkviliðinu á Ísafirði og Guðmundi fannst því liggja beinast við að sækja um í löggunni um leið og hann hafði aldur til. Lögregluferill Guðmundar, sem spannar 35 ár, hófst því á Ísafirði. 

Leitin að týndu börnunum

Í nóvember árið 2014 færði Guðmundur sig um set innan lögreglunnar og fór að vinna í kynferðisbrotadeildinni hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og fór að sinna því verkefni sem hann sinnir í dag, að leita að týndum börnum. 

„Þegar ég byrjaði að eltast við krakkana fórum við í kynningarhring með Barnavernd á höfuðborgarsvæðinu. Barnaverndarstarfsmenn spurðu hvað við yrðum mörg í starfinu og þegar kom í ljós að ég yrði einn var því spáð að ég myndi brenna út á átta til tólf mánuðum. Þetta væri ekki hægt. Ég er enn þá að sex árum seinna og hef gaman af því,” segir Guðmundur og nefnir endurgjöfina sem helstu ástæðuna fyrir því að hann hefur enst svo lengi í þessum málaflokki. „Endurgjöfin er svo mikil, endurgjöfin er mikil frá krökkunum, foreldrum, aðstandendum og ættingjum,” segir Guðmundur. Hann nefnir einnig að hann sé að vinna á allt öðrum stað heldur en starfsfólk Barnaverndar sem hafa oft lengi glímt við vanda fjölskyldu eða barns. „Ég fæ þarna rétt toppinn þegar viðkomandi er í strokhugleiðingum og þegar ég er búinn að finna krakkann skila ég honum heim eða í eitthvað úrræði og þá taka Barnaverndaryfirvöld við að finna einhverjar lausnir,” segir Guðmundur. 

Frá því að Guðmundur tók við þessum málaflokki hefur hann leitað að um 330 börnum. Hann segir þó að mikill misskilningur sé að hann finni þau öll. „Stór hluti skilar sér heim sjálfur, hann skilar sér kannski heim af því hann fær frá mér sms, símtal eða eitthvað slíkt. Ég þarf vissulega að hafa fyrir því að leita að nokkrum þeirra, kannski aftur og aftur,” segir Guðmundur. 

Hluti af endurgjöfinni er að fylgjast með börnunum spjara sig í lífinu. „Mörg þeirra eru vinir mínir á Facebook, Snapchat eða Instagram. Maður hittir þau úti á götu, sum þeirra sér maður með barnavagn og fjölskyldu. Manni er jafnvel heilsað einhverjum árum seinna,” segir Guðmundur sem oft er lengi að átta sig hvaðan hann á að þekkja viðkomandi. Það enda þó ekki allar sögurnar vel. Sum börnin hafa ekki náð að fóta sig í lífinu og eru á vondum stað. Guðmundur segist verða meira var við þau börn heldur en þau sem spjara sig. Af þeim 330 börnum sem hann hefur leitað að eru tvö látin, svo hann viti til.

Andri Freyr Viðarsson ræddi við Guðmund Fylkisson í Sunnudagssögum á Rás 2. Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni í Spilaranum og þar er einnig hægt að hlusta á eldri þætti af Sunnudagssögum. 

orrifr's picture
Orri Freyr Rúnarsson
andriv's picture
Andri Freyr Viðarsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi