Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Hátíð Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna í Hörpu frestað

Tónlistar- og ráðstefnuhús í Reykjavík, Harpa.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir

Hátíð Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna í Hörpu frestað

13.10.2020 - 11:31

Höfundar

Verðlaunahátíð Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna fer fram í Reykjavík 2022 en ekki í desember í ár eins og til stóð, vegna versnandi ástands heimsfaraldursins COVID-19 í Evrópu.

Evrópsku kvikmyndaverðlaunin eru viðamikið samstarfsverkefni ríkis og borgar við Evrópsku kvikmyndaakademíuna (EFA) í Berlín en að því koma meðal annars Harpa og RÚV. Hátíðin fer ekki fram í Hörpu í desember á þessu ári eins og upphaflega stóð til vegna heimsfaraldursins en stafrænni athöfn verður í stað streymt og sjónvarpað beint frá Berlín 12. desember 2020. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

„Við munum halda glæsilega og fjölbreytta hátíðardagskrá til heiðurs evrópskum kvikmyndum, hún verður bara ekki í ár – enda eru nú óvenjulegir tímar sem kalla á sveigjanleika,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. „Þetta er geysilega spennandi tækifæri fyrir íslenska kvikmyndamenningu og kvikmyndageirann hér á landi og við munum nýta það vel.“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að þetta sé eini kosturinn í stöðunni í ljósi heimsfaraldursins. „Það er ánægjulegt að samkomulag hafi náðst um að Evrópsku kvikmyndaverðlaunin verði haldin í Reykjavík að tveimur árum liðnum. Þá verðum við vonandi búin að ná tökum á faraldrinum og getum einbeitt okkur alfarið að því að undirbúa glæsilega hátíð og hliðarviðburði sem við getum nýtt í markaðssetningu á menningarborginni Reykjavík en ekki síður í þágu íslenskrar kvikmyndagerðar og skapandi greina almennt.“

Mike Downey formaður EFA segir ákvörðunina þungbæra en hún hafi verið tekin af ábyrgð og umhyggju fyrir gestum hátíðarinnar. „Við hjá EFA ásamt vinum okkar á Íslandi erum vonsvikin yfir því að ná ekki hittast í Reykjavík á þessu ári. Mikilli sköpunargáfu, ástríðu og orku hefur verið varið úr öllum áttum við skipulagningu verðlaunakvöldsins og kröftugt teymi unnið að því hörðum höndum. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að öllu þessu er hægt að viðhalda og samstarf okkar mun halda áfram með það að markmiði að halda enn skemmtilegri hátíð til heiðurs evrópskrar kvikmyndagerðar á Íslandi í desember árið 2022, þegar heimurinn verður vonandi búinn að sigrast á COVID-19. Við gleðjumst einnig yfir því að EFA-skógurinn í Heiðmörk, sem við gróðursettum í júlí ásamt Skógræktarfélagi Reykjavíkur og vinum okkar úr íslenska kvikmyndasamfélaginu, heldur áfram að vaxa. Trén 3.750 munu nú dafna í enn hreinna lofti og bíða endurkomu okkar eftir tvö ár.”

Í tilkynningunni segir að Evrópska kvikmyndaakademían vinni nú nánar að útfærslu rafrænnar evrópskrar kvikmyndahátíðarviku í Berlín í ár samhliða verðlaunaafhendingarkvöldinu en rúmlega 3.800 meðlimir Evrópsku kvikmyndaakademíunnar munu áður greiða atkvæði um verðlaunin eins og endranær. Vegna heimsfaraldursins verða tilnefningarnar kynntar rafrænt þriðjudaginn 10. nóvember 2020 í streymi.

Tvær kvik­mynd­ir þar sem Íslend­ing­ar koma að fram­leiðslunni á eru meðal þeirra 32 kvik­mynda sem eru í fyrra for­vali til Evr­ópsku kvik­mynda­verðlaun­anna í ár. Kvikmynd Rún­ars Rún­ars­son­ar, Berg­mál og Between Heaven and Earth sem Eggert Ket­ils­son, Elísa­bet Rón­alds­dótt­ir og Fahad Falur Jabali fram­leiddu ásamt fleir­um.