Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Grímuklæddur víkingur labbandi milli leikskóla um jólin

Mynd: S. Bollmann / Wikimedia Commons

Grímuklæddur víkingur labbandi milli leikskóla um jólin

13.10.2020 - 14:43

Höfundar

Margs konar námskeið og kennsla hefur fallið niður eða orðið að færast yfir á rafrænt form í ástandinu sem nú ríkir. Einn þeirra sem hefur þurft að koma sér fyrir á netinu er Þráinn Árni Baldvinsson, sem margir þekkja sem gítarleikarann í Skálmöld, en hann rekur líka tónlistarskólann Tónholt.

„Núna í þessari þriðju bylgju eru allir mjög þakklátir að það sé hægt að halda uppi kennslu fyrir yngstu nemendurna,“ segir Þráinn Árni við Morgunútvarpið. „En maður finnur að þeir eldri, fullorðnu, eru flestir að draga sig í hlé og halda sig í tölvunni fram yfir 19. október.“ Hann segir kennslu í gegnum fjarfundarbúnað ganga mjög vel upp að vissu marki. „En það sem dettur út er samspilið. Við náum aldrei þessu samspili sem þú nærð með því að vera í sama herbergi. En þetta er rosalega þægilegt fyrir marga,“ segir Þráinn sem hefur áður verið með erlenda nemendur sem hann hefur kennt í gegn um netið. Nú sé það hins vegar að aukast hjá Íslendingunum vegna COVID.

Áður hafi Þráinn ferðast um landið og kennt námskeið í leik-, grunn- og framhaldsskólum. „Það er ekkert núna. Framhaldsskólarnir eru alveg út en ég vonast til að geta verið með jólaböllin áfram. Ég náði samt að vera með námskeið í þessum stutta glugga í maí.“ Ýmsum þykir skrítið að þungarokkari eins og Þráinn spili á jólaböllum í leikskólum en hann sér enga þversögn í því. „Þetta er eitt. Rokkið er alls staðar,“ segir Þráinn hlæjandi en bætir við að stundum komi óskalagabeiðnir um Skálmöld eða Rammstein þegar hann er í miðjum tannpínupúkanum.

Skálmöld ákváðu fyrirfram að taka sér frí frá tónleikahaldi árið 2020 og er óhætt að segja að þeir hefðu ekki geta valið betra ár til þess. Þráinn segir þó að ýmislegt sé í pípunum. „Það er byrjað að bóka fyrir næsta ár og tala um þarnæsta, það er að koma út bók um bandið, við erum að gefa út tónleikaplötu 23. október, þannig það er allt að gerast.“ Og Þráinn heldur í vonina að hann geti haldið jólaböll í desember. „Fólk á eftir að sjá grímuklæddan síðhærðan víking með kassagítar labba á milli leikskóla. Það er þá allavega minni smithætta að fá bara einn mann með kassagítar heldur en hljómsveit.“

Tengdar fréttir

Tónlist

Skálmöld - Tíu ára afmælistónleikar

Tónlist

Skálmöld dregur sig í hlé

Mynd með færslu
Menningarefni

Skálmöld fékk 11 milljónir frá Sinfó

Tónlist

Koma frá 37 löndum að sjá Skálmöld og Sinfó