Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gríman gagnslaus ef ekki brúkuð rétt

13.10.2020 - 20:00
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / Kristinn Þeyr Magnússon
Þeim fjölgar stöðugt sem bera grímu til að verjast veirunni. Á mörgum stöðum er nú mælst til eða gert að skyldu að vera með grímu sem hylur munn og nef. 

Hert grímuskylda

Fólk með grímur sem hylja munn og nef er orðið algeng sjón. Grímurnar einar eru ekki töfralausn, þær eru gott hjálpartæki með öðrum aðgerðum, eins og fjarlægð á milli fólks og handhreinsun. 

Samkvæmt þeim sóttvarnaaðgerðum sem nú eru í gildi á að nota grímu þar sem ekki er hægt að tryggja eins metra fjarlægð, eða tveggja metra fjarlægð á höfuðborgarsvæðinu. Grímuskylda er:

  • í verslunum, þar sem ekki er hægt að tryggja bil á milli
  • í samgöngum
  • á menningar og íþróttaviðburðum
  • í allri heilbrigðisþjónustu og löggæslu
  • og í framhalds- og háskólum

Ekkert gagn í grímunni ef hún situr ekki föst

Ása Steinunn Atladóttir, verkefnastjóri sýkingavarna hjá embætti landlæknis, segir að gríma verji bæði þig og aðra. 

Þetta er tvíþætt. Þú ert bæði að verja sjálfan þig fyrir hugsanlega einhverjum dropum sem svífa í loftinu og þú gætir andað að þér og þú ert líka að vernda aðra því þínir eigin dropar geta farið út í loftið.

En hvernig á að brúka grímuna rétt?

„Áður en maður setur grímuna upp er gott að þvo hendurnar eða spritta þannig að maður sé hreinn á höndunum þegar maður setur hana á. Maður þarf einnig að passa að vera ekki að snerta grímuna því hún er mest menguð akkúrat í miðjunni.“

Þá þarf að passa að hún snúi rétt. Bláa hliðin á að snúa fram.  

„Þegar maður setur hana á sig þarf maður að taka hana í sundur og maður lætur þetta bláa snúa út og maður passar að hún hylji vel bæði nefið og munninn. Þá þarf að þétta hana vel því markmiðið er að hún sé eins þétt og hægt er.“

Og þar á gríman að sitja sem fastast, ekki er æskilegt að draga hana til eða frá. 

„Þetta er náttúrulega ekkert voðalega smart að hengja hana á sig eða setja hana niður eða hafa hana þannig að nefið sé fyrir utan - þá er náttúrulega ekkert gagn í grímunni.“

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / Kristinn Þeyr Magnússon
Hvernig á að nota grímuna rétt?

Má ekki blotna eða óhreinkast

Eins virkar hún ekki sem skyldi ef hún blotnar, ef fiktað er í henni og ef ekki er skipt um grímu reglulega. 

Margnota grímur þurfa að vera þriggja laga, úr efni sem haldur í sér raka og óhreinindum og að lágmarki þarf að þvo þær einu sinni á dag. Einnota grímur á helst ekki að nota aftur en sé það gert, þarf að ganga vel frá þeim. 

„Ef að þú ert bara búin að nota hana örstutt og þú ætlar að nota hana aftur þá getur maður tekið hana og sett hana á sig aftur en þá er mjög gott að hafa svona poka til að geyma hana í í millitíðinni. “

Klippa á böndin og beint í ruslið 

Gunnar Dofri Ólafsson,  sérfræðingur í samskiptum og samfélagsvirkni hjá Sorpu, segir að einnota grímur séu ekki tækar til endurvinnslu, en þær eru teknar til hliðar og urðaðar. 

„Grímurnar eru úr mörgum efnum sem er ekki hægt að endurvinna saman. Auk þess vilja samstarfsaðilar okkar erlendis sem taka á móti okkar endurvinnsluefnum ekki fá úrgang sem þennan í sína efnisstrauma og yfirvöld á Íslandi hafa sagt að þetta eigi að fara í almennan úrgang.“

Áður en grímunni er hent er mikilvægt að klippt sé á böndin tvö. Það er gert til að koma í veg fyrir að hún festist í dýralífi eða gróðri, ef hún skyldi enda í náttúrunni.

En hvernig á svo að farga henni rétt?  

„Vinir okkar hjá Veitum yrðu alveg snælduvitlausir ef að þetta færi að fara í klósettið - þannig að það er bara einn farvegur fyrir þetta,“ segir Gunnar Dofri. 

„Það sem þú gerir er að þú kemur þér fyrir fyrir framan eldhúsvaskinn, klippir á böndin sem fara fyrir aftan eyrun, setur grímuna ofan í ruslapokann með restinni af ruslinu þínu, tekur svo pokann, bindur fyrir hann og ferð með hann út í tunnu.“