Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Gegna lykilhlutverki við dreifingu COVID-19 bóluefnis

13.10.2020 - 21:00
Mynd: Þór Ægisson / Þór Ægisson
Íslenskt sprotafyrirtæki ætlar sér lykilhlutverk í innflutningi bóluefnis gegn COVID-19 og hefur gert samning við stærstu lyfjafyrirtæki í heiminum.

Íslenska upplýsingatæknifyrirtækið Controlant smíðar skynjara sem fylgist með viðkvæmum vörum í flutningi og geymslu. Hlutafjárútboði fyrirtækisins lauk fyrir skömmu þar sem söfnuðust tveir milljarðar króna, eða tvöfalt hærri upphæð en lagt var upp með. Gísli Herjólfsson, framkvæmdastjóri og einn af stofnendum fyrirtækisins, segir að Controlant hafi þurft að mæta aukinni eftirspurn hratt því stærstu lyfjarisarnir sem undirbúa dreifingu á COVID-19 bóluefni hafa gert samning við fyrirtækið.

„Mörg af þessum bóluefnum sem eru að fara út núna þurfa að vera geymd við mínus 80 gráður og þá er tækið uppbyggt þannig að þú ert með hitaskynjara sem er að vakta hitann á vörunni sjálfri og síðan er tækið sem sendir allar upplýsingar í rauntíma upp í skýið að fylgjast með staðsetningu og náttúrulega hitastigi á vörunni. Fyrst og fremst erum við  samt náttúrulega að koma í veg fyrir að atvikin verði það alvarleg að þú þurfir að henda lyfjunum,“ segir Gísli. 

Dreifing bóluefnis hefst á næstu vikum. Controlant stækkar því hratt og bætir við fimm nýjum starfsmönnum á viku til að takast á við þetta umfangsmikla verkefni.

„Umfangið á þeim dreifingum er á þeim skala að lyfjafyrirtæki hafa ekki tekist á við þetta áður. Þannig að þau sáu það strax í hendi sér að þau þyrftu að hugsa hlutina upp á nýtt. Við erum náttúrlega mjög stolt af því að hafa fengið að taka þátt í því ferli. Við eigum að vera í startholunum fyrsta nóvember - en svo sjáum við bara til.“

 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV