Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Fjöregg vinnur í samkeppni um útsýnisstað á Súgandisey

Dómnefnd hefur valið vinningstillögu í samkeppni um útsýnisstað á Súgandisey við Stykkishólm. Vinningstillagan var unnin af Glámu-Kím og Landslagi í samstarfi við Ólöfu Nordal og Gunnar Karlsson.
 Mynd: Gláma-Kím - Stykkishólmsbær

Fjöregg vinnur í samkeppni um útsýnisstað á Súgandisey

13.10.2020 - 15:53

Höfundar

Dómnefnd hefur valið vinningstillögu í samkeppni um útsýnisstað á Súgandisey við Stykkishólm. Vinningstillagan var unnin af Glámu-Kím og Landslagi í samstarfi við Ólöfu Nordal og Gunnar Karlsson.

Tillagan er óhefðbundinn útsýnisstaður sem ber heitið Fjöregg. Fjöreggið er útsýnisskúlptúr, útsýnispallur, upplifunar- og áningarstaður allt í senn. Fjöreggið verður sýnilegt frá bænum og því forvitnilegt aðdráttarafl fyrir gesti og gangandi, segir í fréttatilkynningu.

„Fyrst og fremst er Fjöregg hugsað sem kennileiti fyrir Stykkishólm og sem glettinn, gamansamur og óvæntur áningarstaður til að njóta Súgandiseyjar og útsýnisins yfir Breiðafjörð og eyjarnar,“ segir í greinargerð um verkið.

Í greinargerð vinningstillögunnar kemur fram að við hönnun hafi verið leitast við að finna jafnvægi á milli þess náttúrulega og manngerða, þar sem varfærni, virðing og auðmýkt gagnvart staðnum voru leiðarstef í hugmyndavinnu og lausn verkefnisins.

„Markmiðið var að hrófla við sem minnstu og bæta við sem fæstu. Þannig er notað efni sem fyrir er í eynni, bæði huglægt og efnislega. Unnið með formgerð svæðisins, liti og tákn og vísanir í gamlar sagnir og trú.“

Í áliti dómnefndar kemur fram að helstu markmið keppninnar hafi verið, auk þess að efla öryggi á vinsælum útsýnisstað, að ýta undir náttúruupplifun og auka enn frekar aðdráttarafl Stykkishólms sem eftirsóknarverðs ferðamannastaðar á Snæfellsnesi. Samkeppnin tókst vel að mati dómnefndar og skilaði mjög metnaðarfullum og faglegum tillögum. Dómnefnd lagði áherslu á að velja tillögu sem uppfyllti flest þau skilyrði sem lagt var upp með, en auk þess var reynt að leggja mat á kostnaðarrammann sem gefinn var upp í forsögn.

Dómnefnd var sammála um að tillagan sem valin var í verðlaunasætið og skar sig úr með nýstárlegri nálgun,  hefði auk þess ýmsar áhugaverðar skírskotanir í menningu og náttúru svæðisins.

Dómnefnd hefur valið vinningstillögu í samkeppni um útsýnisstað á Súgandisey við Stykkishólm. Vinningstillagan var unnin af Glámu-Kím og Landslagi í samstarfi við Ólöfu Nordal og Gunnar Karlsson.
 Mynd: Gláma-Kím - Stykkishólmsbær

Keppnin var haldin í samstarfi við Félag íslenskra landslagsarkitekta (FÍLA) og óskuðu 22 hönnunarteymi eftir því að taka þátt í samkeppninni. Í viðvist votta voru fjögur teymi dregin út til að taka þátt í keppninni. Eftirtalin teymi voru dregin út: Tendra og MAD,  KRADS og Schöherr, Trípólí og Ómar Ingþórsson, Landslag og Gláma- Kím.

Dómnefndina skipuðu Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar, og Ásmundur Þrastarson, verkfræðingur, fyrir hönd Stykkishólmsbæjar og Dagný Bjarnadóttir, landslagsarkitekt fulltrúi FÍLA. Ritari dómnefndar var Sigurbjartur Loftsson, trúnaðarmaður dómnefndar var Ólafur Melsted, frá FÍLA. Dómnefnd fékk tillögurnar afhentar nafnlausar og var ekki tilkynnt um hver ætti hvaða tillögu fyrr en eftir að búið var að velja vinningstillögu.