Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Endurskoða alla verkferla við malbikun vegna slyssins

13.10.2020 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaug Birta Þorgrímsdóttir - RÚV
Vegagerðin er með alla verkferla við malbikun þjóðvega til endurskoðunar, að sögn Bergþóru Þorkelsdóttur, forstjóra Vegagerðarinnar. Hún sendi frá sér yfirlýsingu í dag vegna umræðunnar í kjölfar banaslyss sem varð á Vesturlandsvegi í sumar. Markmið endurskoðunarinnar er að tryggja að sambærilegt slys geti ekki komið fyrir aftur.

Hjón sem sátu á mótorhjóli létust í slysinu sem rakið hefur verið til galla í malbiksyfirborðinu sem lagt var á veginn þremur dögum áður. Mikil hálka hafði myndast á veginum vegna þess að bik blæddi upp úr klæðningunni. Vegurinn var svo háll að sjúkrabíll skautaði út af veginum þegar hann kom á slysstað.

Malbikið stóðst ekki kröfur Vegagerðarinnar og var rifin upp þegar könnun hafði verið gerð. Malbik var rifið upp víða á þjóðvegum og í þéttbýli nýtt lagt.

„Augljóst samhengi er milli þeirra galla og þeirra aðstæðna sem sköpuðust á slysstað,“ skrifar Bergþóra í yfirlýsingu sinni. „Verkið sem um ræðir var framkvæmt af verktaka með mikla reynslu.  Sú reynsla kom því miður ekki í veg fyrir þær afleiðingar sem við öll þekkjum.“

Starfsmenn Vegagerðarinnar eru harmi slegnir vegna slyssins, skrifar Bergþóra.

Skilur ekki hvers vegna þetta var skilið svona eftir

Heiðrún Finnsdóttir, dóttir mannsins sem lést í slysinu, segir föður sinn Finn Einarsson hafa haft þungar áhyggjur af lélegu malbiki á vegum landsins.

„Pabbi var mjög meðvitaður um þetta. Þetta var eitthvað sem hann hafði bölvað í sand og ösku, og hann lá ekkert á skoðunum sínum um malbik og vegi. En hann var mjög meðvitaður um þetta,“ sagði Heiðrún í viðtali í Kastljósi í gær.

Mynd: Heiðrún Finnsdóttir / Heiðrún Finnsdóttir
Kastljós 12. október 2020

Heiðrún kveðst ekki skilja hvernig Vegagerðinni og verktökum hennar hafi dottið í hug að skilja við vegarkaflann í þessu ástandi: „Það ætti öllum að vera ljóst að þarna er stórhættulegt malbik á ferðinni því það er spegilslétt. Bílarnir sem stoppuðu í stutta stund tóku tjöruna með sér þegar þeir fóru af stað. Þetta átti ekkert að fara fram hjá svona reynsluboltum.“

Hún hyggst leita réttlætis fyrir foreldra sína, og vill að verklagsreglum við vegagerð á Íslandi verði breytt. 

„Ég myndi vilja að eftirlitið yrði frá samgönguráðuneytinu og algerlega óháð Vegagerðinni,“ segir hún. „Það segir sig sjálft að þegar þú býður út verkið og boðið er í það fær lægstbjóðandi verkið. Og verkfræðistofan sem tekur út og á að hafa eftirlit með verkinu fær borgað frá Vegagerðinni. Og það er hagur þeirra að fá aftur vinnu hjá þeim.“

Fjallað var um málið í síðasta þætti Kveiks. Þar kom meðal annars fram að vegfarendur hefðu reynt að gera Vegagerðinni viðvart um hættuna á veginum, án árangurs.