Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Ef spurningunni er ekki svarað er bara að tala hærra“

13.10.2020 - 12:49
Mynd með færslu
 Mynd: Facebook - RÚV
Umbra, þjónustumiðstöð Stjórnarráðsins sem sér um rekstur húsnæðis ráðuneytanna segist hafa tekið ákvörðunina um að fjarlægja áletrun af vegg við Sjávarútvegshúsið í gær. Áletrunin var ákall um nýja stjórnarskrá. Stjórnmálamenn hafi ekki komið að ákvörðuninni. Höfundur verksins hyggst bregðast við þrifunum.

Áletrun á Sjávarútvegshúsið við Skúlagötu í Reykjavík vakti athygli í gær, ekki síst fyrir þær sakir að hún var þrifin af veggnum tveimur dögum eftir að hún var máluð á vegginn. Á veggnum stóð „Hvar er nýja stjórnarskráin?“ og er ákall stuðningsfólks um nýja stjórnarskrá til yfirvalda. 

Narfi Þorsteinsson, höfundur verksins segir merkilegt að ástæða hafi þótt til að þrífa verk hans, þar sem veggurinn hafi fengið að vera óáreittur í gegnum tíðina. Hann býst við því að leikurinn verði endurtekinn í einhverri mynd.

„Já, það er spurning um að leyfa verkunum að tala. Það má búast við einhverju svari þar sem að þetta er spurning sem á vel upp á borð, ef henni er ekki svarað þá er bara að tala hærra.“ segir Narfi.

Mynd með færslu

Skilaboðin fóru ekki fyrir brjóstið á yfirvöldum

Í skriflegu svari til fréttastofu segir Viktor Jens Vigfússon, framkvæmdastjóri Umbru að ákvörðun um að þrífa veggjakrotið hafi verið tekin af Umbru. Stjórnmálamenn eða ráðherrar hafi ekki komið að þeirri ákvörðun. Umbra sé með þjónustusamning við ráðuneytin sem feli meðal annars í sér þrif á öllu óumbeðnu veggjakroti.

Um langt skeið hefur veggurinn við Sjávarútvegshúsið verið þakin veggjakroti. Viktor segir að skilaboðin hafi ekki verið þess valdandi að ástæða hafi þótt til að fjarlægja þau sérstaklega. 

„Nei, Umbra leggur ekki mat á form eða efni veggjakrots heldur lætur þrífa af allt veggjakrot af eignum ráðuneytanna sem eru í þess umsjón. Umbra hafði þar til í júlí ekki umsjón með fasteigninni Skúlagötu 4 ásamt tilheyrandi lóð. Á meðan Hafrannsóknarstofnun var þar til húsa ásamt Atvinnu og nýsköpunarráðuneytinu voru þessir aðilar með sitt húsfélag sem sá um daglega umsjón húss og lóðar.“ segir Viktor í skriflegu svari.

Aðspurður um hvort að ráðist hafi verið í frekari þrif á veggjakroti segir í svarinu að Umbra leggi áherslu á að þrífa strax allt veggjakrot af byggingum ráðuneytanna og það sem sé áberandi umhverfis þær, til að mynda það sem snýr að götum.

„Það er minni áhersla á það sem er lítið áberandi, eins og til að mynda á hlið veggjar sem ekki snýr að götu. Það er þó reynt að bregðast við öllum ábendingum og óskum ráðuneytanna.“ segir Viktor. 

Stuðningur við stjórnarskrárbreytingar eykst

Í nýbirtri könnun MMR kemur fram að um sex af hverjum tíu landsmönnum töldu mikilvægt að Íslendingar fengju nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili og fjölgaði þeim um átta prósentustig milli ára sem töldu málið mjög mikilvægt. Alls sögðu 17 prósent telja það mjög lítilvægt að Íslendingar fengju nýja stjórnarskrá, 8 prósent frekar lítilvægt, 17 prósent bæði og, 19 prósent frekar mikilvægt og 40 prósent mjög mikilvægt.

Þar kemur jafnframt fram að þeim fækkar sem eru á báðum áttum, sérstaklega í hópi yngstu kjósendanna, á aldrinum 18-29 ára, sem taki nú afgerandi afstöðu með endurnýjun stjórnarskrárinnar. Sextíu og níu prósent svarenda í þessum aldurshópi telur endurnýjun frekar eða mjög mikilvæga. Heildarfjöldi svarenda var rúmlega tvö þúsund manns, 18 ára og eldri.