Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bóluefnaprófun frestað vegna veikinda sjálfboðaliða

13.10.2020 - 04:52
epa07609427 A stethoscope lies on a table at a pediatrician's practice in Munich, Germany, 27 May 2019 (issued 29 May 2019).  EPA-EFE/LUKAS BARTH-TUTTAS
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandaríska lyfjafyrirtækið Johnson & Johnson gerði í gær hlé á prófunum fyrir bóluefni gegn COVID-19 vegna veikinda þátttakanda. Prófanir eru á þriðja og síðasta stigi. Óháð öryggisnefnd grípur nú inn í til þess að komast að því hvað veldur veikindum þátttakandans. Á meðan rannsókninni stendur er ekki hægt að bjóða sig fram til þátttöku í prófuninni.

Í fréttatilkynningu Johnson & Johnson segir að alltaf megi búast við einhverjum frávikum í fjölmennum prófunum. Nú verður athugað hvort veikindin séu bein afleiðing bóluefnisins sem verið er að prófa og hvort prófunum verði haldið áfram, hefur AFP fréttastofan eftir tilkynningunni.

Stefnt er að því að fá 60 þúsund sjálfboðaliða til að taka þátt í lokaprófunum á bóluefni Johnson & Johnson. Prófanir verða á 200 stöðum í Bandaríkjunum, auk Argentínu, Brasilíu, Síle, Kólumbíu, Mexíkó, Perú og Suður-Afríku.

Þetta er annað bóluefnið gegn COVID-19 sem þarf að stöðva prófanir á vegna veikinda sjálfboðaliða. Prófanir á hinu efninu sem þróað er af AstraZeneca eru farnar af stað á ný. Efni AstraZeneca er eitt þeirra sem íslenska ríkið hefur í hyggju að kaupa og gefa Íslendingum.

Vilja þróa hraðar en aðrir

Prófunum á þriðja stigi þróunar bóluefnis Johnson & Johnson hófst í síðasta mánuði. Það er eitt sex bóluefna gegn COVID-19 sem eru til prófunar í Bandaríkjunum, og meðal þeirra fjögurra sem eru komin á þriðja og síðasta stig.

Bóluefni Johnson & Johnson þarf aðeins að gefa fólki einu sinni til þess að það myndi mótefni. Önnur bóluefni þarf að gefa fólki tvisvar svo það þrói með sér lífstíðarónæmi fyrir kórónuveirunni sem veldur COVID-19. Vegna þess að aðeins þarf að gefa þetta einu sinni, vona forsvarsmenn fyrirtækisins að prófunum verði lokið fyrr en ella.

Ríkisstjórn Íslands ákvað í sumar að kaupa bóluefni gegn farsóttinni á grundvelli samninga Evrópusambandsins við lyfjaframleiðendur. Gert er ráð fyrir að Ísland þurfi 550 þúsund skammta af bóluefni. Miðað er við að bólusetja um 75 prósent þjóðarinnar til að ná fullnægjandi hjarðónæmi og að hver einstaklingur verði bólusettur tvisvar.

Fréttin hefur verið uppfærð.