Á síðustu árum hafa framlög til safna verið aukin um 19% á síðustu fimm árum segir Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra. Í ár er 4,6 milljörðum varið til safnamála og á næsta árið verður fjárhæðin 5,1 milljarður. Allir geymslukostir hafi verið teknir til endurskoðunar en allta feig að gera betur. Hún tekur sérstaklega til þess að húsakostur Þjóðskjalasafnsins sé ekki í lagi.
Þjóðminjasafnið í viðunandi stöðu
Margt er á seyði í safnamálum og Lilja nefnir sérstaklega að með varðveislu- og rannsóknamiðstöð Þjóðminjasafnsins á Tjarnarvöllum séu mál þar í viðunandi horfi. Menningararfur Íslendinga sé einstakur og forystufólk safna hafi gert mjög vel í síðustu árum. Það hafi verið til framfara að taka tónlist inn í Landsbókasafnið og margt sé vel gert en alltaf megi gera betur. Hún tekur ekki undir það að staðan í geymslunum sé áfellisdómur yfir því hvernig staðið hefur verið að safna málum að minnsta kosti ekki undanfarin ár, en auðvitað verði að huga að öryggismálum svo forða megi verðmætum ef illa fer.
Minjastofnun hefur lokið við stefnu um menningararfinn
Það er Lilju ánægjuefni að til eru nú drög að heildarstefnu og langtímaáætlun um verndun og varðveislu menningarminja frá Minjastofnun. Það er verkefni hennar samkvæmt safnalögum að gera ráðherra tillögu um stefnunar í samvinnu við höfuðsöfn og aðrar stofnanir og nú liggja drögin fyrir. Hún bendir á að stöðugt þurfi að kynna þessi verðmæti fyrir almenningi og vekja hann til vitundar, það sé besta varðveislan.
Nátturuminjasafn á Seltjarnarnes
Framundan eru tímamót í safnamálum að dómi Lilju, loks sé opnun nátturuminjasafns í augsýn. Búið sé að ráðstafa fé svo hægt verði að opna það í húsi því sem reist var fyrir lækningaminjasafn á Seltjarnarnesi. Þar vill hún að sérstaklega verði hugað að fræðslu fyrir börn og ungt fólk í safni sem hún kysi að yrði náttúruvísindasafn. Horft sé til framtíðar á stað sem sé á höfuðborgarsvæðinu en um leið í mikilli nánd við náttúru og sjó.