Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ákalli eftir nýrri stjórnarskrá skolað burtu

13.10.2020 - 16:25
Mynd með færslu
 Mynd: Facebook - RÚV
Spurningin „hvar er nýja stjórnarskráin?“ var máluð á vegg við á Sjávarútvegshúsið við Skúlagötu í Reykjavík um helgina. Hún var hreinsuð af veggnum í gær.

Stjórnarskrá er lög sem segja til um hvernig á að stjórna ríkinu. Hún er æðstu lög Íslands og öll önnur lög verða að vera í samræmi við hana. Stjórnarskrá Íslands er frá 1944. Mörgum þykir kominn tími til að setja nýja stjórnarskrá.

Það lýsir afstöðu yfirvalda til nýrrar stjórnarskrár að listaverkið hafi verið hreinsað af veggnum, segir formaður Stjórnarskrárfélags Íslands. Félagið er að safna undirskriftum fólks sem vill fá nýja stjórnarskrá. Þegar verkið var hreinsað af veggnum fjölgaði undirskriftunum mjög mikið.

Óumbeðin listaverk fjarlægð

Þessi veggur hefur oft verið skreyttur með listaverkum, áletrunum og veggjakroti. Það hefur yfirleitt ekki verið hreinsað af honum. Margir eru undrandi og hneykslaðir á að spurningin um stjórnarskrána hafi ekki fengið að standa.

Fjölmiðillinn Stundin greinir frá því að fyrirtækið sem hreinsaði vegginn hafi gert það fyrir Umbra, sem er rekstrarfélag Stjórnarráðsins.

Viktor Jens Vigfússon, framkvæmdastjóri Umbru, segir að félagið haldi eignum Stjórnarráðsins hreinum og fjarlægi öll óumbeðin listaverk eins og þetta. Sjávarútvegshúsið hafi nýlega verið fært undir Umbru. Um það gildi sömu reglur og aðrar eignir Stjórnarráðsins. Það eigi að hreinsa öll óumbeðin listaverk af eignum ríkisins. Umbra hafi ákveðið að hreinsa vegginn. Ráðherrar og stjórnmálamenn hafi ekki gert kröfu um það.

Úr reiði í gleði

Katrín Oddsdóttir, formaður Stjórnarskrárfélags Íslands, segir að þetta þjóðþrifaverk ríkisins hafi vakið ótrúlega mikla athygli. Vinnubrögðin séu táknræn fyrir viðhorf yfirvalda til nýrrar stjórnarskrár. Þjóðin hafi kosið að fá nýja stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir átta árum. Hún hefur enn ekki verið sett.

Katrín segir að margir hafi fyrst orðið reiðir yfir því að verkið var hreinsað af veggnum. Reiðin breyttist í gleði þegar í ljós kom að mörg hundruð manns bættu nafni sínu á undirskriftalistann þegar fréttir bárust af hreinsuninni. Þrifin á veggnum hafi verið góður liðsauki og vakið athygli á málstaðnum.