Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

59% Íslendinga telja mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Um sex af hverjum tíu telja mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá á þessu kjörtímabili. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR sem var gerð í september. 25 prósent segja lítilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá.

Í könnuninni kemur jafnframt fram að þeim fækkar sem eru á báðum áttum, sérstaklega í hópi yngstu kjósendanna, á aldrinum 18-29 ára, sem taki nú afgerandi afstöðu með endurnýjun stjórnarskrárinnar. 69 prósent svarenda í þessum aldurshópi telur endurnýjun frekar eða mjög mikilvæga. Helmingur þeirra sem eru 68 ára og eldri telja mjög mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá.

Konur eru mun hallari undir þá skoðun að Íslendingar setji sér nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili. 67 prósent kvenna segja það mikilvægt, samanborið við 51 prósent karla. Karlar eru á sama hátt líklegri til að telja nýja stjórnarskrá lítilvægt atriði, miðað við konur. Hlutfallslega jafn margar konur og karlar eru hlutlaus.

 

Sé litið til búsetu þá sést að höfuðborgarbúar vilja frekar nýja stjórnarskrá en fólk sem býr utan þess.

Engar nánari spurningar

Ekki var spurt nánar út í afstöðu fólks til nýrrar stjórnarskrár eða hvers vegna það telur mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá. Þegar þetta er ritað hafa tæplega 33 þúsund Íslendingar ritað nafn sitt á undirskriftarlista um nýja stjórnarskrá. Þar krefst fólk þess að Alþingi virði niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2012 og lögfesti nýju stjórnarskrána.

Í atkvæðagreiðslunni var meðal annars spurt hvort tillögur stjórnlagaráðs ættu að vera lagðar til grundvallar frumvarpi um nýja stjórnarskrá. 66,9 prósent þeirra sem greiddu atkvæði sögðu já við þeirri spurningu.

Í könnun MMR var spurt hvort fólk vildi fá nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili. Því lýkur við boðaðar Alþingiskosningar haustið 2021. Ný stjórnarskrá getur þó ekki tekið gildi á yfirstandandi kjörtímabili. Stjórnarskrárbreytingar þarf að samþykkja á Alþingi, áður en þing er rofið og boðað til kosninga. Nýtt þing þarf svo að samþykkja sömu stjórnarskrárbreytingar svo þær taki gildi.

Heildarfjöldi svarenda í könnun MMR var 2.043, 18 ára og eldri. Könnunin var gerð dagana 10. til 23. september 2020.