
Vilja sértækan byggðakvóta fyrir Kópasker
Kópasker telst brothætt byggð og er hluti af verkefninu „Brothættar byggðir, Öxarfjörður í sókn.“ Byggðarráð Norðurþings sendi í maí erindi til Byggðastofnunar og óskaði eftir samstarfi um úthlutun sértæks byggðakvóta fyrir Kópasker á grundvelli verkefnisins um brothættar byggðir.
Öllum aflaheimildum Byggðastofnunar þegar ráðstafað
Svar barst í lok september þar sem fram kemur að búið sé að úthluta öllum þeim aflaheimildum sem Byggðastofnun hafi yfir að ráða með samningum sem gerðir eru til allt að sex ára í senn. Stofnunin geti því ekki orðið við erindinu á meðan þeir samningar eru í gildi. Málið verði þó tekið upp við ráðherra. Beðist er velvirðingar á því hve dregist hafi að svara erindi byggðarráðs.
Byggðakvóti á Kópaskeri fari minnkandi
Á síðasta fundi byggðarráðs Norðurþings lagði Hjálmar Bogi Hafliðason, fultrúi í byggðarráði, fram bókun um þetta mál og bendir meðal annars á að hlutdeild Kópaskers í almennum byggðarkvóta hafi verið 22 tonn, síðastliðin þrjú ár. Tíu ár þar á undan hafi hlutdeild Kópaskers verið 39 tonn. Kópasker hafi aldrei fengið hlutdeild í sértækum byggðakvóta og þar sé engin línuívilnun.
Ekki tekist að efla sjávarútveg á Kópaskeri
„Byggðastofnun kom að úthlutun sértæks byggðakvóta á Raufarhöfn enda þá hluti af verkefninu Brothættar byggðir. Kópasker/Öxarfjörður er nú hluti af verkefninu Brothættar byggðir en ekki hefur tekist að skapa fjölbreytni eða vaxtarmöguleika í sjávarútvegi á Kópaskeri. Engin regluleg fiskvinnsla er á Kópaskeri. Til þess vantar kvóta. Úthlutun kvóta, forsendur og aflamark, í bæði almenna byggðakvótakerfinu og sértæku úthlutunni er mannanna verk og nú þarf kjark til að úthluta kvóta á Kópaskeri með öllum tiltækum ráðum,“ segir jafnframt í bókuninni sem byggðarráð tekur undir.