Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

„Við erum að reyna að finna út hvað gerðist“

12.10.2020 - 10:54
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Ríkislögreglustjóri og Neyðarlínan reyna nú í sameiningu að komast að því hvers vegna símtal til Neyðarlínunnar á föstudagskvöld um eld í Grafningi skilaði sér ekki til lögreglu. Maður lést í brunanum, sem reyndist hafa verið í húsbíl og uppgötvaðist ekki fyrr en á hádegi daginn eftir. Reynt var að gefa þeim sem hringdi samband við fjarskiptamiðstöð Ríkislögreglustjóra en þar svaraði enginn og svo virðist sem ekkert hafi verið gert við tilkynninguna.

„Við erum að reyna að finna út hvað gerðist,“ segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri. „Það er verið að vinna þetta sameiginlega milli Neyðarlínunnar og fjarskiptamiðstöðvar Ríkislögreglustjóra,“ bætir hún við.

„Það eru þarna atburðir sem við fáum ekki alveg til að stemma og erum að reyna að skoða hvort það sé bilun í tölvukerfi, hvort þetta séu mannleg mistök, af hverju tilkynningin barst ekki með réttum hætti yfir – það liggur ekki alveg fyrir hvað gerðist þannig að við erum bara með okkar besta fólk í að skoða þetta.“

Efasemdir um að tæknin hafi virkað rétt

Spurð nánar að því í hverju greiningarvinnan felist, segir Sigríður: „Það er verið að hlusta á samtalið, athuga hvort fyrst viðbrögð voru eins og þau hefðu átt að vera, hvort símtalið er flutt yfir með réttum hætti, af hverju því var ekki svarað og síðan þá hvernig verkefnið liggur fyrir í kerfunum. Þetta er ákveðin tæknileg útfærsla sem við erum ekki alveg viss um að hafi virkað með þeim hætti sem hún átti að gera.“

Um leið og niðurstaðan liggi fyrir verði hún opinberuð. „Þetta er náttúrulega hörmulegur atburður og við munum reyna að vinna þetta hratt og vel,“ segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri.