Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Um tugur vitna gefið sig fram við lögreglu vegna bruna

Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - rúv
Lögreglan á Suðurlandi segir líklegast að eldsvoði, þar sem maður brann inni í húsbíl seint á föstudagskvöld, hafi verið slys. Hönnunargalli í tölvukerfi Neyðarlínunnar olli því að símtal sem barst þangað á föstudagskvöld um eldsvoðann skilaði sér ekki rétta leið og kom ekki inn á borð lögreglu fyrr en hálfum sólarhring síðar. 

Hafði haldið til í húsbílnum í nokkur ár

Lögreglu var tilkynnt um brunninn bíl á jörð Torfastaða í Grafningi á hádegi á laugardag, og í honum fundust líkamsleifar manns á fertugsaldri og hræ af tveimur hundum. Lögreglan á Suðurlandi telur sig vita hver hinn látni er þótt formleg kennsl hafi ekki verið borin á hann. 

„Hann hélt þarna til í þessum húsbíl og var búinn að vera í honum einhver ár, bæði hér á Suðurlandinu og í Reykjavík,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn.

Hafa rætt við tug sjónarvotta og fólk á nærliggjandi bæjum

Lögreglan rannsakar nú eldsupptökin, en tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og réttarmeinafræðingur aðstoða við rannsóknina. Lögreglan hefur í dag rætt við um tíu sjónarvotta og fólk á nærliggjandi bæjum, sem ekki varð vart við neitt fyrr en daginn eftir og gerði þá viðvart. Oddur segir rannsóknina ganga vel.

„Við byrjum bara á öllum hugsanlegum skýringum og erum að rannsaka slys eða eitthvað annað og mjög líklega bara slys,“ segir hann.

Galli í tölvukerfi Neyðarlínunnar

Í gærkvöld kom í ljós að seint á föstudagskvöld, hálfum sólarhring áður en bíllinn fannst, hafði vitni hringt í Neyðarlínuna og sagt frá eldi. Símtalið skilaði sér aldrei til fjarskiptamiðstöðvar lögreglu. Samkvæmt upplýsingum frá Neyðarlínunni virðist sökin liggja í tölvukerfinu þar. Neyðarlínan vildi þó ekki veita fréttastofu viðtal vegna málsins. 

„Í mínum huga þá er það þannig að ef að þú hringir í Neyðarlínu þá færðu lausn þinna mála einn tveir og þrír af mjög miklu fagfólki. Þannig að ég á von á að þetta sé alveg einstakt dæmi,“ segir Oddur.

Fjórði húsbílabruninn á stuttum tíma

Að sögn Odds er þetta í fjórða sinn á síðustu tíu árum sem fólk hefur látist í bruna í húsbíl eða hjólhýsi í umdæminu.

„Og þetta eru alveg skelfilegir brunar, þetta gerist gríðarlega hratt og ef að þú kemst ekki út á fyrstu mínútunni þá áttu enga von.“

Hann telur útilokað að hægt hefði verið að bjarga manninum þótt símtalið í Neyðarlínuna hefði skilað sér.

„Í mínum huga er útilokað að þessi maður hafi verið á lífi á þeim tíma sem þau hringja inn. Það er bara útilokað og hefði engu breytt um niðurstöðuna, en vissulega hefði verið rétt og eðlilegt að þetta færi eftir öllum útköllum sem berast um eld og bruna. Þá viljum við hafa annað viðbragð og að það sé strax,“ segir Oddur Árnason.