Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þrifaæði stjórnvalda veldur undirskriftasprengingu

Mynd með færslu
 Mynd: Facebook - RÚV
Ákall um nýja stjórnarskrá sem málað var á vegg við Atvinnuvegaráðuneytið var fjarlægt seinni partinn í dag. Áletrunin „Hvar er nýja stjórnarskráin?“ var máluð á vegginn um helgina. Veggurinn tilheyrir lóð Sjávarútvegshússins við Skúlagötu í Reykjavík. Formaður Stjórnarskrárfélagsins segir aðgerðina lýsandi fyrir afstöðu yfirvalda. Þrifaæði þeirra hafi hrint af stað sprengingu í undirskriftum á kröfulista um nýja stjórnarskrá.

Í gegnum tíðina hefur veggurinn oft verið skreyttur listaverkum og áletrunum. Lítið hefur verið viðhafst við því þar til nú. Margir hafa lýst yfir undrun sinni og hneykslan á samfélagsmiðlum yfir því að áletrunin hafi ekki fengið að standa. Stundin greinir frá því að fyrirtækið sem sá um að þrífa áletrunina af hafi fengið beiðni um verkið frá félaginu Umbra, sem er rekstrarfélag Stjórnarráðsins.

Viktor Jens Vigfússon, framkvæmdastjóri Umbru segir í samtali við fréttastofu að það sé hlutverk félagsins að halda eignum í eigu Stjórnarráðsins hreinum og fjarlægja öll óumbeðin listaverk, sem þetta. Aðspurður um af hverju ástæða þótti til að fjarlægja áletrunina, þrátt fyrir að í gegnum tíðina hafi fjölmörg listaverk fengið að standa á veggnum, segir Viktor að Sjávarútvegshúsið hafi nýlega verið fært undir Umbru, og það lúti sömu reglum og aðrar eignir stjórnarráðsins um að hreinsa skuli öll óumbeðin listaverk á eigum ríkisins. 

Hann segir að ákvörðunin hafi verið tekin af starfsmönnum Umbru, en ekki af ráðherrum eða stjórnmálamönnum. 

Úr reiði í gleði

Katrín Oddsdóttir, formaður Stjórnarskrárfélags Íslands segir að þessi þjóðþrifaverk hins opinbera hafi vakið ótrúlega athygli. Hún segir að fólki hafi verið verulega misboðið yfir þessari þrifamaníu stjórnvalda. Vinnubrögðin séu táknræn á ýmsa vegu.

„Þessi aðgerð stjórnarráðsins opinberar með mjög skýrum hætti þá afstöðu sem yfirvöld hafa til nýju stjórnarskrárinnar, því miður. Þetta er reyndar eins og stórfengleg myndlíking fyrir stöðuna sem íslenska þjóðin er í, eftir að hafa kosið um nýja stjórnarskráin skyldi í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir átta árum síðan. Réttur þjóðarinnar sem stjórnarskrárgjafa hefur alfarið verið þaggaður niður af þeim sem sitja við völd hverju sinni. Eftir því sem deginum hefur undið fram hefur tilfinningin fyrir þessari skyndilegu þrifmaníu yfirvalda reyndar breyst. Fyrst kallaði þetta fram reiði og depurð hjá fólki sem ég hef talað við en nú hefur sú tilfinning vikið fyrir gleði. Ástæðan er að þessi tilraun til þöggunar á þessari tilteknu tjáningu hefur valdið stórsprengju í undirskriftum við kröfuna fyrir nýju stjórnarskrána.“

Hún segir að viðbrögðin hafi ekki látið á sér standa í undirskriftasöfnuninni sem lýkur um næstu helgi. Þrifin á veggnum hafi verið góður liðsauki og vakið athygli á málstaðnum.

„Það sem af er degi hafa yfir 700 kjósendur bæst á listann sem finna má á nystjornarskra.is. Það er nú hægt að gleðjast yfir smærri sigrum! Ég sendi því bara þessum óþekkta embættismanni sem tók ákvörðun um að láta þetta fallega myndlistarverk fjúka, hugheilar ástar- og þakkarkveðjur.“

 

Mynd með færslu
Svona leit veggurinn við Skúlagötu áður út.